Innlent

Aukið eftirlit vegna tilrauna til að tæla börn upp í bíl

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Hafnarfirði
Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Hafnarfirði
Karlmaður reyndi að lokka níu ára dreng upp í bíl til sín á Völlunum í Hafnarfirði í gær. Níu slík tilvik hafa komið upp á höfuðborgarsvæðinu á síðustu fjórum vikum og þar af fimm í Hafnarfirði. Faðir drengsins segir hann hafa brugðist hárrétt við.

Drengurinn var á leið heim til vinar síns þegar atvikið átti sér stað á Kirkjuvöllum í Hafnarfirði. Faðir drengsins, sem ekki vill koma fram undir nafni drengsins vegna, segir hann hafa brugðist hárrétt við.

„Hann var að fara að hlaupa til vinar síns. Við búum á Völlunum í Hafnarfirði en vinur hans býr í Áslandinu. Þetta gerist neðst í götunni okkar. Það er maður á vinnubíl sem reynir að lokka hann til sín og segist vera með fullt af nammi í bílnum og fartölvur, hvort hann vilji ekki koma til sín. Sem betur fer brást hann hárrétt við og hljóp eins og fætur toguðu upp í Ásland,“ segir faðir drengsins.

Atvikið var tilkynnt til lögreglu skömmu síðar sem tók skýrslu af drengnum. Drengurinn lýsti manninum sem þrekvöxnum karlmanni í kringum fimmtugt með skegg.

Atvikið í gær er ekki það fyrsta sem kemur upp í hverfinu. Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Hafnarfirði, segir að fimm mál hafi komið upp í Hafnarfirði á síðustu fórum vikum þar sem tilkynnt hefur verið um tilraun til að reyna tæla barn upp í bíl. Málin séu níu á höfuðborgarsvæðinu.

Enginn hafi verið handtekinn vegna málanna en rætt hafi verið við einn mann sem talinn er eiga aðild að einhverjum málanna.

„Sem við teljum að eigi allavega tvær tilkynningar hér í Hafnarfirði og eitthvað annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Hann hefur komið við sögu áður í svipuðum málum,“ segir Margeir og bætir við að lögreglan hafi aukið eftirlit á þeim svæðum sem tilkynningarnar hafa borist frá.

Margeir segir að rannsókn málsins sem kom upp á Völlunum í gær sé í fullum gangi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×