Á annan tug manns býr í húsbílum á tjaldstæðinu í Laugardalnum í Reykjavík. Samkvæmt þeim sem Fréttablaðið ræddi við búa umræddir einstaklingar einkum þar vegna óhagstæðs húsnæðismarkaðar.
Einn íbúa hverfisins sem Fréttablaðið ræddi við segir alls um fimmtán manns búa á svæðinu um þessar mundir. Sjálfur býr hann í húsbíl vegna þess hversu dýrt er að leigja eða kaupa húsnæði.
Fjóla Stefánsdóttir hefur búið á tjaldstæðinu síðan í sumar. Hún segist hafa flutt þangað þegar leiga hennar hækkaði. Fjóla er hins vegar að flytja í félagsíbúð á næstunni og hlakkar mikið til.
„Það verður gott að geta eldað á eldavél og komist á klósettið,“ segir hún.
Fjóla segir einnig að nokkrir íbúar hverfisins búi á landsbyggðinni en séu að vinna á höfuðborgarsvæðinu í vetur. Ódýrara sé fyrir viðkomandi að búa á tjaldstæðinu en að leigja íbúð.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu
