Undirbúningur annarrar þáttaraðar af Leitinni að upprunanum er hafinn. Í upphafi ætlaði Sigrún Ósk Kristjánsdóttir ekki að gera aðra þáttaröð en lét tilleiðast. Fyrsta þáttaröðin hlaut í gær Edduverðlaun í flokki frétta- og viðtalsþátta.
„Á dauða mínum átti ég von en ekki þessu,“ sagði Sigrún Ósk þegar ljóst var að hún hefði unnið til verðlaunanna.
„Eftir að fyrstu þættirnir fóru í loftið fékk ég hátt í hundrað tölvupósta frá fólki sem var áhugasamt um þátttöku ef það yrði gerð önnur þáttaröð. Framan af svaraði ég því til að það væri nánast útilokað að ég myndi gera þetta aftur,“ segir Sigrún Ósk.
Sigrún hafði lengi haft hugmyndina að þáttunum á bak við eyrað áður en hún réðst loks í gerð þeirra. Það gerðist eftir að hún var „tögguð“ í pósti á Facebook þar sem kona spurði hvort einhver fjölmiðlamaður hefði ekki áhuga á að ráðast í þetta verkefni.
„Ég mætti með hugmynd að þessum eina þætti á fund og hún var samþykkt með því skilyrði að þetta yrði að þáttaröð. Ég lofaði henni eiginlega upp í ermina á mér,“ segir Sigrún og hlær.
Vinnan að baki þáttunum var gífurleg og í raun áttu þeir hug hennar allan í heilt ár. Var það ástæðan fyrir því að hún veigraði sér við í fyrstu að ráðast í gerð nýrrar þáttaraðar. Í þakkarræðu sinni í gær þakkaði Sigrún meðal annars eiginmanni sínum og sonum fyrir að hafa ekki nýtt fjarveru sína „til að skipta sér út fyrir einhverja aðra sem væri meira heima og gerði meira gagn“.
„Þetta er svolítið eins og barnsfæðingar. Fyrst um sinn hugsarðu að það sé ekki séns að þú munir gera þetta aftur. Smám saman gleymir maður því og á endanum er ekkert sem þú vilt meir en að gera þetta aftur,“ segir Sigrún Ósk. „Það er staðreynd að ég held að ég hafi ekki tekið þátt í neinu jafn gefandi um ævina.“
Þeir sem hafa áhuga á að vera þátttakendur í Leitinni að upprunanum geta sent tölvupóst á netfangið sigrunosk@stod2.is.
Sigrún heldur áfram að leita að upprunanum

Tengdar fréttir

Kolbrún Sara gerir upp upprunaleitina: „Ég er moldrík kona í dag“
Kolbrún Sara hefur farið í gegnum mikinn tilfinningarússíbana undanfarnar vikur.

Tilfinningarnar báru Brynju ofurliði á Sri Lanka: „Mig langar að heyra hana segja nafnið mitt“
"Ég hef kannski ekki áhyggjur af neinu en ég veit samt ekki alveg hvar ég á að staðsetja þau,“ segir Brynja M. Dan Gunnarsdóttir sem var ættleidd frá Sri Lanka fyrir þrjátíu árum.

Fannst draumi líkast að hitta móður sína: Grétu báðar og féllust í faðma
„Dagurinn var strembinn og tilfinningalega átakanlegur en samt draumi líkastur og þetta fór allt miklu betur en ég þorði að vona,” sagði Rósíka Gestsdóttir sem fann líffræðilega móður sína í Sri Lanka

Móðir Kolbrúnar brotnaði niður þegar hún hitti dóttur sína eftir 37 ár
Ef þú horfðir ekki á Leitin að upprunanum á Stöð 2 í gærkvöldi skaltu hætta að lesa, því hér á eftir fylgja upplýsingar um það sem fram kom í þættinum.