Innlent

Högna Sigurðardóttir látin

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Högna Sigurðardóttir, fékk ótal viðurkenningar fyrir störf sín sem arkitekt.
Högna Sigurðardóttir, fékk ótal viðurkenningar fyrir störf sín sem arkitekt. Listasafn Reykjavíkur
Högna Sigurðardóttir arkitekt, er látin 88 ára að aldri. Högna vakti athygli snemma fyrir störf sín, en hún varð fyrst kvenna til að teikna hús á Íslandi. RÚV greinir frá.

Högna var þekkt fyrir viðhorf sín til arkitektúrs en hún lagði áherslu á tengsl húss við land og náttúru og leit hún svo á að húsið og innra byrði væru órofa heild. Hrá, ómáluð steypa lék þannig stórt hlutverk í hönnun Högnu.

Högna fæddist í Vestmannaeyjum árið 1929 og útskrifaðist hún sem arkitekt árið 1960 frá Ecole des Beauz Arts í París, fyrst Íslendinga.

Einbýlishús reist í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ á sjöunda áratugnum eru meðal þess sem ber störfum hennar merki en eitt af hennar frægustu hönnunum var einbýlishúsið við Bakkaflöt 1 í Garðabæ.

Í umsögn sagði að í húsinu birtist næm tilfinning Högnu fyrir landslagi og náttúru en húsið var valið eitt af 100 merkustu byggingum 20. aldar í norður- og mið Evrópu í yfirlitsriti um byggingarlist 20. aldar.

Högna hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín á ferlinum, þar á meðal tók hún sæti í akademíu franskra arkitekta árið 1992 og árið 2007 hlaut hún heiðursorðu Sjónlistar fyrir einstakt framlag til íslenskrar nútímabyggingarlistar. Árið 2008 var Högna svo kjörin heiðursfélagi Arkitektafélags Íslands.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.