Innlent

Átta ára fangelsi fyrir tilraun til að drepa barnsmóður sína

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Átta ára fangelsisdómur féll í héraði á þriðjudag yfir karlmanni fyrir tilraun til manndráps og frelsissviptingu gagnvart barnsmóður sinni.
Átta ára fangelsisdómur féll í héraði á þriðjudag yfir karlmanni fyrir tilraun til manndráps og frelsissviptingu gagnvart barnsmóður sinni. Vísir/Getty
Átta ára fangelsisdómur féll í héraði á þriðjudag yfir karlmanni fyrir tilraun til manndráps og frelsissviptingu gagnvart barnsmóður sinni. Maðurinn þarf að greiða konunni um tvær milljónir króna í skaðabætur. Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan í júlí þegar hann var handtekinn af lögreglu á heimili konunnar.

RÚV greindi fyrst frá en dómurinn hefur ekki verið birtur á vefsíðu Héraðsdóms Reykjaness. Maðurinn var upphaflega handtekinn 23. júlí og úrskurðaður í viku gæsluvarðhald sem síðan var framlengt um fjórar vikur á grundvelli almannahagsmuna. Hann hefur síðan setið í gæsluvarðhaldi en hann rauf skilorð með broti sínu.

Missti meðvitund eftir hálstak

Maðurinn er dæmdur fyrir tilraun til manndráps með því að hafa tekið hana hálstaki þannig að hún misti meðvitund. Hún komst þó aftur til meðvitundar, gerði lögreglu viðvart sem mætti á svæðið og handtók manninn.

Í greinargerð lögreglu sem fylgdi kröfunni um gæsluvarðhald síðastliðið sumar á grundvelli almannahagsmuna kom fram að maðurinn hefði komið um nóttina óboðinn heim til hennar ásamt öðrum manni sem konan þekkti ekki. Barnsfaðirinn hefði viljað að hún svæfi hjá þeim báðum en það vildi konan ekki. Sagði hún þeim að fara sem þeir gerðu.

Stuttu síðar kom barnsfaðir hennar aftur og bað um gistingu. Sagði konan að hann mætti gista á sófanum, hann fór fram en kom svo inn í svefnherbergið, réðst á konuna og nauðgaði henni. Er málsatvikum lýst sem svo í dómi héraðsdóms:

„Taldi brotaþoli atlögu kærða hafa staðið í yfir tvo klukkutíma en á þessum tíma hafi kærði ítrekað nauðgað brotþola, barið hana og hótað henni. Hafi hann þannig haft við hana samfarir um munn, í leggöng og í endaþarm. Hafi brotþoli lýst því að kærði hafi hótað henni með hníf og meðal annars borið hníf að hálsi hennar á meðan hann hafi haft samfarir við hana. Hafi hún hlotið skurð á höku eftir hnífinn. Þá hafi brotþoli sagt að sér væri svo heitt en kærði hafi meinað henni að opna glugga en leyft henni að fara í sturtu. Hann hafi svo nauðgað henni í sturtunni og skellt henni á vegg þar. Brotþoli hafi jafnframt lýst því að hún hefði á einhverjum tímapunkti í atburðarrásinni reynt að komast að útidyrahurð til að kalla á hjálp en kærði hafi náð henni, haldið henni niðri og tekið hana kverktaki þar til hún hafi misst meðvitund. Einnig hafi komið fram hjá brotþola að kærði hafi ítrekað hótað henni lífláti og jafnvel talað um að taka eigið líf um leið. Kveðst brotþoli hafa óttast mjög um líf sitt og talið að kærði ætlaði sér virkilega að drepa hana. Kvaðst brotþoli hafa reynt að ná til kærða með því að ræða við hann um börn þeirra en hún hafi ekkert náð til hans, hann hafi virst brjálaður.“

Fundu blóð í íbúðinni

Þá segir jafnframt í greinargerð lögreglu að samkvæmt skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun hafi áverkar konunnar, sem voru um allan líkama hennar, verið í samræmi við frásögn hennar af atburðum. Þá hafi lögreglan séð blóðslettur víða um íbúðina, meðal annars í forstofu, á gangi við barnaherbergi, stofu og svefnherbergi.

„Blóð hafi einnig fundist við sófa en kærði hafi setið þar þegar lögregla kom að. Þá hafi fundist hnífur með blóði í vaski baðherbergis. Muni hnífurinn vera nokkuð beittur. Inni á baðherbergi hafi allt verið á floti og augljóst að sturtan hafði verið í gangi. Í sturtuklefanum hafi fundist hár á vegg, síð hár. Var það mat rannsóknarlögreglumanns á vettvangi að þessi hár væru nýkomin á vegginn því þau hefðu skolast niður næst þegar skrúfað væri frá vatninu. Á gólfi í svefnherbergi hafi fundist töluvert af hári,“ segir í dómi héraðsdóms.

Maðurinn neitaði sök í málinu og er lýsing hans á atburðum afar ólík lýsingum konunnar. Maðurinn var á skilorði þegar hann var handtekinn en hann hafði áður hlotið dóm fyrir ofbeldi gegn konunni. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hefur þegar verið tekin ákvörðun um að áfrýja dómnum til Hæstaréttar.


Tengdar fréttir

Grunur um hrottalegt brot

Íslenskur karlmaður er grunaður um að hafa nauðgað konu og beitt hana hrottalegu ofbeldi á heimili hennar á föstudag fyrir rúmri viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×