Innlent

Banaslys á Reykjanesi: HS Orka rannsakar svæðið eftir að gas úr borholu lak inn á vatnsveitu

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá aðgerðum lögreglu á vettvangi.
Frá aðgerðum lögreglu á vettvangi. Vísir/GVA
Starfsmenn HS Orku eru nú staddir á svæðinu við Reykjanesvirkjun vegna rannsóknar á banaslysi tengdu fiskvinnslufyrirtækinu Háteigi í morgun.

Maðurinn sem lést var starfsmaður Háteigs en hann fannst meðvitundarlaus í svefnskála tengdum fyrirtækinu í morgun. Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur og var maðurinn í kjölfarið úrskurðaður látinn. Annar maður var fluttur á sjúkrahús vegna málsins.

Fyrstu fregnir af málinu sögðu frá því að sterk og annarleg lykt væri í húsnæði fyrirtækisins en í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum kom fram að gas úr borholu mun hafa farið inn á staðbundna vatnsveitu.

Fyrirtækið er ásamt tveimur öðrum fyrirtækjum, Stolt Farm Seafood og fiskþurrkuninni Haustak, á svæðinu við Reykjanesvirkjun sem er í eigu HS Orku.

Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, var á vettvangi þegar Vísir heyrði í honum en hann sagði rannsókn standa yfir og að tilkynning muni koma frá HS Orku þegar botn er kominn í málið.

Svæðið var rýmt í morgun en lögreglan sagði í tilkynningu að verið væri að ljúka nauðsynlegum hreinsunarstörfum og engin hætta sé á ferðum varðandi almenning. Ekki er lokað fyrir umferð en í tilkynningu frá lögreglunni kom fram að neysluvatn til almennings á Suðurnesjum sé í góðu lagi.


Tengdar fréttir

Banaslys í svefnskála á Reykjanesi

Einn maður lést og annar hefur verið fluttur á sjúkrahús eftir slys sem átti sér stað hjá fiskvinnslufyrirtækinu Háteigur á Reykjanesi í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×