Innlent

Örnólfur Thorlacius er látinn

atli ísleifsson skrifar
Örnólfur Thorlacius.
Örnólfur Thorlacius. Vísir/gva
Örnólfur Thorlacius, fyrrverandi rektor Menntaskólans við Hamrahlíð, lést í gærkvöldi, 85 ára að aldri.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá aðstandendum.

„Örnólfur fæddist 9. september 1931. Foreldrar hans voru Sigurður Thorlacius skólastjóri og Áslaug Kristjánsdóttir Thorlacius ritari. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1951 og námi í lífræði, efnafræði og dýrafræði frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð. 

Örnólfur kenndi við MR 1960 til 1967 og við MH 1967 til 1980 og var rektor MH 1980 til 1995.

Örnólfur frumsamdi margar bækur, einkum kennslubækur og þýddi fjölmargar bækur af ýmsum toga og birti greinar í tímaritum. Þekktastur er Örnólfur fyrir alþýðufræðslu sína, m.a. vinsæla þætti í útvarpi og  sjónvarpi og þá sérstaklega sjónvarpsþáttinn Nýjasta tækni og vísindi sem var á dagskrá RUV í mörg ár. Finna má á vísindavef Háskóla Íslands mörg svör hans af ýmsum toga.

Þrátt fyrir erfið veikindi tókst Örnólfi að ljúka Flugsögunni, sem kom út nú fyrir jólin og einnig er tilbúið handrit að dýrafræði sem hann hafði lengi unnið að og er stefnt að því að þetta merkilega verk verði gefið út á næstunni.

Hann hlaut margar viðurkenningar fyrir brautryðjendastarf og frumleika við miðlun vísinda. Örnólfsbók var gefin út honum til heiðurs á 75 ára afmæli hans, en í henni eru m.a. fjölmargar ritgerðir eftir hann.   

Örnólfur var kvæntur Guðnýju Ellu Sigurðardóttur sérkennara sem lést fyrir aldur fram 1983.

Þau eignuðust fjóra syni Sigurð, Arngrím, Birgi og Lárus.

Síðar var sambýliskona hans Rannveig Tryggvadóttir þýðandi. Hún lést 2015,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×