Innlent

Páll studdi ekki ráðherraskipan: Lítilsvirðing gagnvart Suðurkjördæmi

Birgir Olgeirsson skrifar
Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
„Á þingflokksfundi í gærkvöldi sagðist ég því miður ekki geta stutt þá ráðherraskipan sem formaður flokksins gerði tillögu um,“ segir Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sinni.

Páll hafnaði í fyrsta sæti í prófkjöri flokksins í Suðurkjördæmi og er greinilegt á Páli að honum finnst framhjá sér og kjördæminu gengið við útnefninu ráðherraembætta í gær.

Hann segir fjölda fyrirspurna og athugasemda hafa dunið á sér síðasta hálfa sólarhringinn eftir að ráðherraskipanin var kynnt en Páll segir að honum finnist það vera skylda sín að upplýsa stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi um afstöðu sína.

Hann segist ekki hafa stutt þessa ráðherraskipan og fyrir því séu tvær ástæður.

„Í fyrsta lagi gengi þessi skipan í veigamiklum atriðum gegn því lýðræðislega umboði sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu áunnið sér í prófkjörum og síðan kosningum í haust. Í öðru lagi fæli hún í sér lítilsvirðingu gagnvart Suðurkjördæmi þar sem Sjálfstæðisflokkurinn vann sinn stærsta sigur í kosningunum,“ segir Páll.

Hann segir þessa afstöðu sína ekki hafa að gera með þá einstaklinga sem völdust til ráðherraembætta.

„Þau eru öll hið vænsta fólk og ég óskaði þeim hjartanlega til hamingju.“


Tengdar fréttir

Sjö nýir ráðherrar

Sjö þingmenn taka í fyrsta sinn við embætti ráðherra í nýrri ríkisstjórn Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks. Alls verða ráðherrarnir ellefu. Sex úr röðum Sjálfstæðisflokks, þrír úr Viðreisn og tveir frá Bjartri framtíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×