Innlent

Tók fimm áburðartegundir af skrá í fyrra

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Fimm áburðartegundir voru teknar af skrá í fyrra.
Fimm áburðartegundir voru teknar af skrá í fyrra. Vísir/Stefán
Matvælastofnun hefur birt ársskýrslu um áburðareftirlit á vegum stofnunarinnar þar sem finna má helstu niðurstöður eftirlits með áburði á árinu 2016. Stofnunin ákvað að taka fimm áburðartegundir af skrá en mest var flutt inn af áburði fyrir jarðrækt.

Í skýrslunni kemur fram að árið 2016 fluttu 24 fyrirtæki inn áburð og jarðvegsbætandi efni, en um er að ræða 306 tegundir. Það þýðir að í heildina voru flutt inn 47.259 tonn af slíkum áburði.

Á heimasíðu stofnunarinnar má sjá að langmest magn áburðar var flutt inn fyrir jarðrækt, en sjö fyrirtæki fluttu inn 45.595 tonn af áburði í þeim tilgangi, en næst mest var flutt inn af áburði vegna ylræktar og garðyrkju, eða 880.440 tonn, þá voru 56.120 tonn flutt inn vegna íþróttavalla og 319.192 tonn sem jarðvegsvætar og 408.242 tonn sem blómaáburður.

Matvælastofnun tók sýnatöku og framkvæmdi vöruskoðun hjá fimm innflutningsfyrirtækjum og tók 56 áburðarsýni af 56 áburðartegundum á árinu. Að auki voru merkingar og umbúðir skoðaðar. Eins og hefur komið fram ákvað stofnunin eftir efnamælingar að taka fimm áburðartegundir af skrá sem voru með efnainnihaldi undir vikmörkum samkvæmt ákvæðum reglugerða.

Kemur fram að stofnunin hafi á árinu gert fáar athugasemdir við merkingar, en helstu gallar voru vegna misræmis milli skráninga og merkinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×