„Það er mikið af nýju fólki og einnig margir sem hafa unnið fyrir hátíðina í gegnum tíðina sem kemur nú inn á nýjum forsendum. Það eru nýir eigendur að hátíðinni – þar inni eru Steinþór Helgi Arnsteinsson, yfirbókari og listrænn stjórnandi, ég er nýr framkvæmdastjóri, Margeir Steinar Ingólfsson sér um markaðsmálin og Ívar Kristjánsson er fjármálastjóri,“ segir Ásgeir Guðmundsson, nýr framkvæmdastjóri tónlistarhátíðarinnar Sónar.
„Síðan erum við með Egil Tómasson, Siggu litlu Ólafsdóttur, Söndru Barilli og Gyðu Lóu Ólafsdóttur sem er fjölmiðlafulltrúi hátíðarinnar. Við erum orðin þétt og reynslumikið teymi. Það er ótrúlega gaman að fara inn í þetta verkefni á traustum grunni með ótrúlega margt hæfileikaríkt fólk til að taka þessa hátíð enn þá lengra.“

Má fólk búast við einhverjum nýjungum í ár?
„Helsta nýjungin í ár er að meira púðri verður eytt í opnu svæðin. Við ætlum að leggja meira í fimmtudaginn svo að hátíðin verði sterk þvert yfir alla dagana og einnig ætlum við að gera Hörpuna þannig að þú labbir ekki inn í Hörpuna þar sem Sónar er, heldur að þú labbir inn á Sónar sem er Hörpunni. Til þess höfum við fengið til liðs við okkur Þorgeir Frímann Óðinsson, sem mun sjá um þessi opnu svæði.“
Í dag tilkynnir hátíðin nýja listamenn sem munu spila í Hörpunni í febrúar. Þetta eru breski grime-rapparinn Giggs, plötusnúðurinn og pródúserinn Blawan og einnig munu gestir hátíðarinnar fá að berja breska rapparann Nadiu Rose augum.

Blawan er breskur plötusnúður og pródúser sem nú er búsettur í plötusnúðahöfuðborg heimsins, Berlín. Þar hefur hann verið að pumpa út brennandi heitu teknói upp á síðkastið.
Hin 22 ára Nadia Rose er nýfædd inn í bresku rappsenuna, gaf út sinn fyrsta smell fyrir svona tíu mínútum og er strax búin að spila á tónlistarhátíðum og komin með samning við Sony. Raunar er það sama í gildi með Nadiu og Giggs, við gætum verið að sjá stórstjörnu í fæðingu í Hörpunni.
Þegar hafa verið kynntir til leiks tónlistarmenn eins og Fatboy Slim, Moderat, De La Soul, Sleigh Bells, GusGus, FM Belfast, Forest Swords, Sin Fang, Samaris, Tommy Genesis og fleiri. Hátíðin fer fram í Hörpunni 16. til 18. febrúar.