Innlent

Jarðskjálfti á Hengilssvæðinu fannst vel í höfuðborginni

Atli Ísleifsson og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Jarðskjálftinn fannst vel á höfuðborgarsvæðinu.
Jarðskjálftinn fannst vel á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Vilhelm
Jarðskjálfti að stærð 3,8 varð á Hengilssvæðinu klukkan 11:56, samkvæmt upplýsingum frá Kristínu Jónsdóttur, fagstjóra jarðvár hjá Veðurstofu Íslands.

Jarðskjálftinn fannst vel á höfuðborgarsvæðinu og þá fannst hann einnig vel á Selfossi. Kristín segir að nú séu sérfræðingar Veðurstofunnar að fara yfir skjálftann.

Uppfært 12:26

Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að skjálftinn hafi verið í Grafningnum, um 3 kílómetrum sunnan við Þingvallavatn. Jarðskjálftinn fannst vel á Suðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu. Um hálftíma áður varð annar jarðskjálfti 2,8 að stærð á sama stað. Nokkrir minni eftirskjálftar hafa mælst. Hægt er að fylgjast með jarðskjálftavirkni á vef Veðurstofunnar.

Uppfært 12:27

Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar, segir í samtali við Vísi að upptök skjálftans benda til þess að það sé mjög ólíklegt að skjálftinn tengist niðurdælingu. „Þetta er fyrir austan Nesjavelli og ekki á þessu svæði sem við höfum séð skjálfta tengda niðurdælingu, sem hefur verið á Húsmúlasvæðinu. Það er talsvert frá.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×