Innlent

Grunaðir um að hafa ráðist á tælenskan ferðamann við Kjörgarð

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Grunur leikur á að ráðist hafi verið á manninn við Bónusverslunina á Laugavegi.
Grunur leikur á að ráðist hafi verið á manninn við Bónusverslunina á Laugavegi. Vísir
Tveir menn á þrítugsaldri eru grunaðir um að hafa ráðist á tælenskan ferðamann við Kjörgarð á Laugavegi um klukkan sjö í gærkvöldi.

Annar er í haldi lögreglunnar en hins mannsins er enn leitað. Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Vísi en fyrst var greint frá árásinni á mbl.is.

„Það voru þarna tveir ungir menn sem veittust að þessum tælenska ferðamanni. Hann hlaut innvorti áverka og þurfti einhverja meðhöndlun á sjúkrahúsi en svo virðist sem hann hafi ekki verið alvarlega slasaður,“ segir Grímur.

Annar mannanna var handtekinn fljótlega eftir árásina í gærkvöldi en hins er enn leitað eins og áður segir. Aðspurður segir hann ekki grunsemdir um að vopni hafi verið beitt í árásinni.

Málið er í rannsókn hjá lögreglu og segir Grímur enga ákvörðun hafa verið tekna um hvort að gæsluvarðhalds verði krafist í því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×