Innlent

Týndir smalar og slasaður fjórhjólamaður

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Björgunarmenn að störfum. Mynd tengist frétt ekki beint.
Björgunarmenn að störfum. Mynd tengist frétt ekki beint. Vísir/Ernir
Rétt fyrir níu í kvöld voru björgunarsveitir frá Vesturlandi, Ströndum, Vestfjörðum og sveitir við Húnaflóa, boðaðar út vegna týndra smala í Selárdal á Ströndum. Þeir höfðu ekki skilað sér á réttum tíma til byggða.

Fyrstu hópar fóru úr húsi klukkan níu og rétt fyrir hálf tíu voru mennirnir tveir fundnir heilir á húfi. Sautján björgunarsveitir voru boðaðar út og voru fleiri hópar á leið á svæðið

Fimmtán mínútum eftir að fyrstu sveitir voru boðaðar út vegna týndu smalanna á Ströndum, voru sveitir á Norðausturlandi boðaðar út vegna annars manns sem hafði fallið af fjórhjóli og er hann talinn slasaður. Fyrstu hópar eru að nálgast vettvang, en maðurinn er blautur og kaldur.

Um tíu í kvöld voru sjúkraflutningamenn, björgunarsveitafólk og læknir komnir að manninum sem slasaðist eftir fall af fjórhjóli á Norðausturlandi. Leiðin að slysstað er erfið yfirferðar og seinfær, þess vegna þurfti breytta jeppa og sexhjól til að komast á slysstað.

Björgunarsveitarfólk og aðrir viðbragðsaðilar eru að hlúa að manninum á meðan beðið er flutnings.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×