Innlent

Skemmdarverk unnin á Akureyrarkirkju í skjóli nætur

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það er ófögur sjón sem blasir við við Akureyrarkirkju nú.
Það er ófögur sjón sem blasir við við Akureyrarkirkju nú. mynd/svavar alfreð jónsson
Skemmdarverk voru unnin á Akureyrarkirkju, og þremur kirkjum til viðbótar í bænum, í nótt þegar ókvæðisorð voru spreyjuð á framhlið og suðurhlið kirkjunnar. Svavar Alfreð Jónsson, prestur í kirkjunni, segir þetta ekki í fyrsta skipti sem skemmdarverk séu unnin á kirkjunni en hann birti myndir á Facebook-síðu sinni af skemmdarverkunum í morgun.

Það alvarlegasta var þegar reynt var að kveikja í henni en þá hefur einnig verið spreyjað á kirkjuna og kirkjuhurðina og skorið í hana. Svavar segir þó að aldrei hafi verið svo miklu spreyjað á kirkjuna.

„Við prestararnir vorum bara látin vita af þessu í morgun þegar fólk sem var á leið til vinnu fór hérna um. Auðvitað verður manni illa við þegar fólk sýnir þessu svona mikla óvirðingu en maður veit auðvitað ekkert hvað býr þarna að baki,“ segir Svavar í samtali við Vísi.

Sjá einnig:Kveikt í hurðinni á Akureyrarkirkju

Klukkan hálftvö í dag er útför frá kirkjunni og segir Svavar að kirkjuvörðurinn sé strax byrjaður að finna út hvernig hægt sé að þrífa spreyið af í tæka tíð. Búið er að tilkynna málið til lögreglu sem þarf þó líklegast að koma á staðinn fyrst og skoða vettvang sem og tryggingafélagið.

Aðspurður segir Svavar að ekki séu eftirlitsmyndavélar alveg við kirkjuna.

„Þær eru í raun og veru ekki alveg beint við kirkjuna en það eru víða eftirlitsmyndavélar þarna í nágrenninu,“ segir Svavar. Því er ekki útilokað að eitthvað verði hægt að kanna efni úr þeim til að komast að því hverjir voru þarna að verki.

Frétt uppfærð klukkan 10:59


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×