Lífið

Hrifu foreldrana með sér

Aron Ingi Guðmundsson skrifar
Mikil samheldni einkenndi leikarahópinn, að sögn Halldóru leikstjóra.
Mikil samheldni einkenndi leikarahópinn, að sögn Halldóru leikstjóra. Mynd/Þórdís Sif Sigurðardóttir
Ég sá Matildu á West End á Englandi og langaði strax í kjölfarið að setja hana upp á Íslandi,“ segir Halldóra Jónasdóttir, leikstjóri söngleiksins Matildu sem frumsýndur var í Bolungarvík um síðustu helgi. Tuttugu og sjö krakkar á aldrinum átta til fimmtán ára tóku þátt, sýningarnar urðu fjórar talsins og húsfyllir á þeim flestum.

Halldóra þýddi líka verkið. Hún byrjaði á að setja það upp í Selásskóla í Reykjavík 2015, þar voru líka fjórar sýningar og leikararnir tuttugu talsins, að sögn Halldóru sem kveðst hafa fyllst löngun til að setja verkið upp aftur og því strax farið að undirbúa uppsetningu fyrir vestan fyrir tveimur árum. Hún er fædd og uppalin í Bolungarvík og er í kennaranámi, langar að gerast leiklistarkennari og sýningin er hluti af lokaverkefni hennar til B.ed.-náms.





Leikstjórinn Halldóra Jónasdóttir.
„Allt gekk mjög vel,“ segir Halldóra. „Krakkarnir sendu inn myndbönd eða mættu í prufur eftir að ég auglýsti í haust. Mér leist svo vel á þá að ég ákvað að leyfa öllum að vera með. Skipti þeim í tvo hópa, það voru sem sagt tveir um hvert hlutverk. Það sem stóð upp úr var hversu mikil gleði ríkti og hvað allir voru góðir vinir. Foreldrarnir hjálpuðu mikið til á lokasprettinum, ég gat einbeitt mér að hljóði og lýsingu og þeir aðstoðuðu baksviðs. Gleðin hafði greinilega skilað sér heim og hrifið foreldrana með.“

– aig / gun






Fleiri fréttir

Sjá meira


×