Sigmar sætir skömmum og blammeringum
„Viðbrögðin sem ég fékk við þessu viðtali við Jónínu voru verulega harkaleg, enda var hún svosem ekkert að sykurhúða hlutina. Ekki síst fékk ég viðbrögð úr bankaheiminum, jafnvel skammir og blammeringar, þar sem var býsnast yfir því að Jónína hafi fengið að gagnrýna söluna á bankanum með þessum hætti. Hún sagði margt í þættinum, en nú er ljóst að það sem hún sagði um bankasöluna, var að mestu leyti kórrétt,“ segir Sigmar Guðmundsson í samtali við Vísi.

Ekki flugufótur fyrir ávirðingunum
DV fjallaði um málið og leitaði viðbragða þeirra Ólafs og Finns. „Ég met það svo að kröftum mínum sé varið í annað og betra en að eltast við Jónínu Ben. Hún þarf örugglega á aðstoð annarra að halda í sínum málum en mér. Það að fá yfir sig lögsókn er ekki til þess fallið að byggja hana upp," sagði Ólafur.
En Finnur sendi frá sér yfirlýsingu sem var á eina leið; málflutningur Jónínu væri uppspuni og ósannindi: „Í Kastljósi Sjónvarpsins síðastliðið sunnudagskvöld var dengt yfir þjóðina ótrúlegri blöndu af samhengislausum fullyrðingum, dylgjum, ósannindum og hreinum uppspuna um nafngreinda menn og fyrirtæki. Þar á meðal kom undirritaður við sögu en einnig fyrirtækið sem ég er í forsvari fyrir og var reyndar ranglega útnefndur eigandi að! Það hljóta fleiri en ég að spyrja sig á hvaða leið við erum í þjóðmálaumræðunni þegar það þykir ekki lengur tiltökumál að saka fólk um stórfelld afbrot á opinberum vettvangi án þess flugufótur sé fyrir ávirðingunum.“

Í DV segir einnig frá því, í tengdri frétt, að Valgerður Sverrisdóttir þá bankamálaráðherra, hafi mætt orðum Jónínu, um glæpsamlega hegðun stjórnvalda við einkavinavæðinguna, af mikilli hörku. Og Sigmar vær ákúrur fyrir orð viðmælanda síns.
„Mér er ómögulegt að skilja hvaða hvatir ráða því að Sjónvarpið kýs að senda út þátt eins og þann sem landsmönnum var boðið upp á í gærkveldi, þ.e. drottningarviðtal í Kastljósi við Jónínu Ben. Ef svarið er að þátturinn hafi verið í beinni útsendingu þá er það ekkert svar. Þeir sem hafa fylgst með skrifum Jónínu Benediktsdóttur vita um afstöðu hennar til mála. Er allt leyfilegt þegar Framsóknarflokkurinn er annars vegar eða menn honum tengdir, eða sagðir tengdir? Það er augljóslega verið að reyna að hafa áhrif á umræðuna í þjóðfélaginu," sagði Valgerður á heimasíðu sinni og bætti því við að henni ofbjóði vitleysan og dylgjurnar sem bornar eru á borð fyrir alþjóð.