Vanti einhverjum hugmyndir um hvað skuli gera á laugardag eftir að hafa kosið geta kraftmiklir teknóunnendur skellt sér upp á Esju þar sem GusGus og Dj Margeir halda tónleika.
Um er að ræða þriðju tónleika Nova upp á Esjunni en í fyrrasumar hélt Ásgeir Trausti tónleika þar.
Veðurspáin fyrir laugardaginn er hin glæsilegasta. Spáð er logni og verður hiti á milli 10 – 16 stig. Ekki er spáð rigningu. Þó er mælt með því að fólk mæti vel klætt og vel undirbúið fyrir fjallgöngu áður en það leggur í það að ganga hlíðar Esjunnar.
Tónleikarnir hefjast kl. 14 og eru öllum opnir sem treysta sér upp á tindinn. Þyrluþjónustan Helo selur svo flug upp á Esjuna fyrir 6.500 kr. og 13 þúsund krónur báðar leiðir.
