Með vörulínunni tvinna þær saman fagurfræði, hefðum og nútíma í endingargóðan fatnað sem bæði vex með hverju barni og endist á milli kynslóða að því er kemur fram í tilkynningu frá Hönnunarmiðstöð Íslands.
Hátt í 100 tilnefningar báraust dómnefnd sem tilnefndi fjögur verkefni sem þóttu sigurstranglegust en í umsögn dómnefndarinnar um As We Grow segir:
„As We Grow byggir á ábyrgum umhverfissjónarmiðum og afstöðu gagnvart líftíma og endingu framleiðsluvöru á tímum ofgnóttar. Tímalaus einfaldleiki hönnunar og einstök gæði vöru hafa ásamt samfélagslegri ábyrgð og metnaðarfullri stefnu í umhverfismálum skapað fyrirtækinu sérstöðu heima og heiman.“
Þá hlaut fyrirtækið Geysir viðurkenningu fryri bestu fjárfestingu í hönnun árið 2016 en viðurkenningin er veitt fyrirtæki sem hefur arkitektúr eða hönnun að leiðarljósi allt frá upphafi verka. Í umsögn dómnefndar um Geysi segir:
„Geysir hefur fengið einhverja færstu hönnuði landsins til starfa á öllum vígstöðvum, hvort sem við á um vörumerki, ímyndarsköpun, hönnun verslana, grafíska hönnun eða fatahönnun. Þannig hefur fyrirtækið skilgreint mikilvægi hönnunar í öllu þróunarferli og skapað ímynd og upplifun tengda fyrirtækinu með framúrskarandi hætti.
Með því að setja þátt hönnunar í öndvegi hefur Geysir á skömmum tíma náð einstökum árangri og er orðið eitt þekktasta vörumerki landsins.“
