Kjararáð hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu en laun forstöðumanna nokkurra ríkisstofnana hækkuðu um tugi prósenta eftir nýja úrskurði ráðsins. Hækkanirnar ná allt aftur til 1. desember 2014 og koma ofan á 7,15 prósenta almenna launahækkun sem tók gildi 1. júní. Bjarni sagðist ekki hafa neitt með úrskurði ráðsins að gera.
„Ég geri mér grein fyrir því að þetta eru orðin margföld meðallaun í landinu.“ Fjármálaráðherrann segir vandann heimatilbúinn, það er að segja að hann eigi rætur sínar að rekja til óeðlilegra inngripa þingsins til þessara mála með breytingum á lögum um kjararáð árið 2009. Með lagabreytingunni var þeim störfum sem kjararáð skal ákveða kjör fyrir fjölgað.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur unnið drög að frumvarpi um kjararáð þar sem lagt er til að ráðið ákvarði laun mun færri en það er eðlilegra að mati Bjarna, að fólk hafi frelsi til að semja um eigin kjör.

„En það er ekki þannig að kjararáð sé að semja um þessi laun. Þau gera rannsókn á því hvað fólk í sambærilegum stöðum er með í laun,“ útskýrði Bjarni og nefndi að kjararáð byggði ákvarðanir sínar á skýrslum og gögnum.
Bjarni sagði þó mikilvægt að fá toppfólk til sérfræðistarfa í landinu. „Það þarf að ráða sérfræðinga í þessi störf.“
Hann sagði það sérstakt að hafa verið að ræða það fyrir stuttu í fjölmiðlum hversu mikilvægt það væri að bjóða læknum góð kjör en að annar tónn sé í landanum nú.
„Þá voru allir sammála um að ef við ætluðum að fá besta mögulega fólk til landsins að þá yrðum við að tryggja að fá sem best kjör fyrir sérfræðinga,“ sagði Bjarni.
Bjarni sagði jafnframt að ekki væri kosningahrollur í Sjálfstæðisflokknum eða ríkisstjórnarsamstarfinu. Hann sagðist munu benda kjósendum á góð störf ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu og að á miklum óvissutímum væri gott að halda áfram á sömu braut.