Spínat er í grænmetisfjölskyldunni Amaranthaceae en það sem selt er frá Lambhaga er í fjölskyldunni Brassicaceae. Í sömu fjölskyldu eru til dæmis næpur og hvítkál.

Hann segist alltaf hafa vitað að spínatið frá Lambhaga væri ekki í raun og veru spínat. „Við tókum þá ákvörðun að vera ekki með spínat því venjulegt spínat inniheldur talsvert mikið af oxalsýrum sem valda óþoli.“
Kostir alvöru spínats eru meðal annars hátt járnmagn. Samkvæmt Wikipedia er járn í 100 g af spínati 2,71 mg en í kálinu sem Lambhagi notar er það 1,5 mg. Þó skal tekið fram að næringargildi ferskra matjurta tapast við geymslu en viðheldur sér til dæmis betur í frystingu.
„Það kom athugasemd frá samkeppnisaðila okkar og við fórum í gegnum allt. Hún var alveg réttmæt og ekkert að því. En við viljum ekki kenna okkur við það að selja spínat. Það er talsvert mikið af oxalsýru í spínatinu og það er sagt, þegar maður les um spínat, að það þurfi að sjóða það áður en maður borðar það. Þetta vitum við sem erum í garðyrkju hér á Íslandi.“
Samkeppnisaðilinn sendi sýni af kálinu til Þýskalands þar sem það var efnagreint. Óskar Ísfeld hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur staðfestir að málið hafi komið inn á borð þess. „Við fengum ábendingu um að þarna væri hugsanlega röng merking á vöru og rannsökuðum málið. Það kom í ljós að það var röng merking á vörunni sem slíkri. Í framhaldi af því breytti Lambhagi merkingunni.“
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 5. apríl.