Framsóknarflokkurinn var með beina útsendingu á vefnum frá flokksþinginu sem hófst í dag. Útsendingin varði þó ekki lengi þó að fundurinn sjálfur standi í tvo daga.
Það var nefnilega aðeins sýnt beint frá ræðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns flokksins en þegar hann hafði lokið máli sínu lauk útsendingunni líka. Á eftir Sigmundi Davíð kom forsætisráðherra og varaformaður flokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson, í pontu en þá hafði verið lokað fyrir beinu útsendinguna. Í pósti til fjölmiðla sem Jóhannes Þór Skúlason aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs kom fram að streymt yrði frá ræðu formannsins og ráðherra Framsóknarflokksins.
Mikil spenna er innan Framsóknarflokksins vegna komandi formannskjörs á morgun en þar eru þeir tveir í framboði, Sigmundur Davíð og Sigurður Ingi. Nokkur styr stóð um dagskrá flokksþingsins í vikunni en í drögum þess var ekki gert ráð fyrir ræðu forsætisráðherra. Dagskránni var síðan breytt í gær og þar settar inn ræður ráðherra flokksins, þar með talin ræða Sigurðar Inga.
Í ræðu sinni í dag skaut Sigurður Ingi nokkuð fast á Sigmund Davíð þó að hann nefndi formanninn aldrei á nafn. Hann sagði það til dæmis ekki í anda Framsóknarflokksins að formaðurinn ákvæði það einhliða að forsætisráðherra fengi aðeins 15 mínútur til að fara yfir störf ríkisstjórnarinnar síðustu sex mánuði.
Vísir streymdi frá fundinum hér.
