Lífið

Heppinn hann Rassi að finna sér svona gott listamannsnafn

Jakob Bjarnar skrifar
Samræður feðganna Freys og Eyjólfs Flóka sveifluðust óvænt frá Erró yfir í Ragnar Kjartansson -- sem að mati Eyjólfs Flóka er með ansi gott listamannsnafn.
Samræður feðganna Freys og Eyjólfs Flóka sveifluðust óvænt frá Erró yfir í Ragnar Kjartansson -- sem að mati Eyjólfs Flóka er með ansi gott listamannsnafn.
Freyr Eyjólfsson, útvarpsmaður með meiru, er nú búsettur ásamt fjölskyldu sinni úti í Gex í Frakklandi. Hann greindi vinum sínum á Facebook frá merkilegum samræðum sem hann átti í við son sinn Eyjólf Flóka, sem er sex ára. Og er óhætt að segja að hugleiðingar drengsins hafi vakið mikla kátínu.

Listamanninn Erró á góma, en Freyr hefur einmitt gert heimildarmynd um hann sem sýnd var í fyrra. En, samræðurnar við soninn tóku óvænta stefnu:

Eyjólfur Flóki: „Heitir hann Erró?“

Freyr: „Nei, hann heitir Guðmundur, Erró er listamannsnafn.“

Eyjólfur Flóki: „Listamannsnafn? Ég þarf að fá mér svoleiðis.“

Freyr: „Hvað viltu heita?“

Eyjólfur Flóki: „Rassi.“

Freyr: „Það er reyndar frátekið - það er maður sem kallar sig Rassi Prump.“

Eyjólfur Flóki: „Vá, hvað hann er heppinn, að finna svona gott nafn.“

Ekki er hægt að segja annað en samræðurnar haldist innan ramma; sveiflast frá Erró yfir í Ragnar Kjartansson, myndlistarmenn sem báðir hafa gert garðinn frægan utan landsteina. Vísir spurði Frey hvort Eyjólfur Freyr væri heimspekilega sinnaður, en Freyr gefur lítið út á það.

„Nei, bara ruglaður eins og pabbi sinn.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×