Menning

Frumsýna Óþelló tvisvar

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Leikhópurinn á æfingu. Gísli Örn Garðarsson leikstýrir og Ingvar E. Sigurðsson fer með titilhlutverkið.
Leikhópurinn á æfingu. Gísli Örn Garðarsson leikstýrir og Ingvar E. Sigurðsson fer með titilhlutverkið. Vísir/Eyþór
Breytt er út af hefðinni í Þjóðleikhúsinu þessi jólin, en þar hefur jólasýningin í mörg ár verið frumsýnd á annan í jólum. Hins vegar verður jólasýningin Óþelló eftir William Shakespeare frumsýnd annað kvöld og sérstök hátíðarsýning verður á annan í jólum.

Samkvæmt Júlíu Aradóttur, kynningarfulltrúa hjá Þjóðleikhúsinu er ástæðan sú að einungis hluti sætanna í stóra salnum nýtist, meðal annars er ekki hægt að sitja á svölunum.

„Ástæðan er í raun sú að leikmyndin er þannig að það nýtist bara hluti af sætunum í salnum. Þannig að við þurftum eiginlega að skipta þessu á tvær dagsetningar til að koma öllum fyrir, kortagestum, boðslistum, aðstandendum og öllu þessu. Og þá var bara þessi lausn ákveðin, ákveðið að prófa þetta,“ segir Júlía í samtali við Vísi sem segir jafnframt þetta vera í fyrsta skipti svo hún viti til sem brugðið er út af þeirri hefð að frumsýna á annan í jólum.

Sjá einnig: Segir leikhúsið vera karlaheim

Miðaverð á frumsýningar er yfirleitt um það bil tvöfalt hærra en miðaverð á venjulegar sýningar og verður það einnig svo á hátíðarsýninguna á annan í jólum. Miði á þá sýningu kostar 9.900 krónur en miði á aðrar sýningar eftir það er á 5.500 krónur.

„Við nálgumst þetta eins og tvær frumsýningar. Það er bæði núna á morgun og svo annan í jólum sem við köllum hátíðarsýningu. Það er atriði fyrir mörgum sem hafa komið á annan í jólum í mörg ár, að halda í hefðina. Þannig við erum eiginlega með tvöfalda frumsýningu,“ segir Júlía.

Meiri ró í hópnum

Það er gamalgróin hjátrú í leikhúsi að önnur sýning sé ekki nándar jafn góð og frumsýningin. Júlía segir þó að leikhúsgestir sem koma á annan í jólum hafi ekkert að óttast og að margir hafi tekið vel í það að koma fyrir jól.

„Kortagestirnir, sem eru frumsýningarkortagestir, skiptast eiginlega í tvennt. Öðrum helmingnum finnst fínt að koma fyrir jól en hinn vill halda í hefðina og koma á annan í jólum. Svo er reyndar, það er svo fyndið með þessa aðra sýningu. Þessi mýta er einhvernvegin í gangi en hún er oft bara ekki verri af því að edge-ið er komið af þannig það eru allir rólegri. Ekki sama stressið. Það er svona meiri ró í hópnum.“

Leikmyndin er þannig upp sett að ekki er hægt að nýta 140 sæti af þeim 500 sem eru í salnum.

„Þetta er alveg stór hluti. Þannig það er eiginlega bara með því að hafa tvær sýningar er þetta rétt rúmlega sætafjöldinn á eina sýningu með öllum sætum. Þetta kemur nánast út á sléttu.“


Tengdar fréttir

Grípa í skugga á sviðinu

Harmleikurinn um Óþelló er jólasýning Þjóðleikhússins í ár. Þau Arnmundur Backman og Aldís Hamilton fara með hlutverk í sýningunni og ræða um leikverkið og arfleifð foreldra sinna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×