Lífið

Giftu sig í Vegas og héldu brúðkaupinu leyndu fyrir öllum í þrjá daga

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Auður Ösp og Kristjón Kormákur byrjuðu saman í sumar og eru nú orðin hjón.
Auður Ösp og Kristjón Kormákur byrjuðu saman í sumar og eru nú orðin hjón.
Auður Ösp Guðmundsdóttir og Kristjón Kormákur Guðjónsson eru hjón. Þetta getur sjálfur Elvis Presley vottað en hann, eða maður í gervi goðsagnarinnar, gaf Auði og Kristjón saman á jóladag í Las Vegas í Bandaríkjunum.

Auður og Kristjón, sem starfa bæði á DV þar sem Kristjón er ritstjóri og Auður blaðamaður, greindu frá brúðkaupinu á Facebook á ellefta tímanum í dag og óhætt er að segja að þau hafi komið vinum sínum og ættingjum í opna skjöldu. Hamingjuóskum rignir yfir þau en enginn vissi að þau ætluðu að gifta sig í fríi þeirra vestan hafs. Ekki einu sinni þau sjálf.

Átti von á símtali frá mömmu

„Ég hélt að þetta væri mamma að hringja,“ segir Kristjón greinilega spenntur yfir viðbrögðum móður sinnar, rithöfundarins Elísabetar Jökulsdóttur, við tíðindunum. 

Auður og Kristjón fóru að rugla saman reitum fyrr á árinu og hafa verið par síðan í sumar. Þau ákváðu að skella sér í frí til Los Angeles yfir jólin og ákváðu svo að skreppa þaðan til Las Vegas. Á leiðinni þangað kviknaði hugmyndin að innsigla ástina í kapellu, „Vegas-style“. 

„Það var krafa Auðar að Elvis yrði prestur,“ segir Kristjón sem þurfti að punga út nokkrum aukadollurum til að sá draumur yrði uppfylltur. Brúðkaupsdagurinn gekk þó ekki áfallalaust fyrir sig. Þau áttu pantað í kapellunni klukkan 21 og ákváðu að skella sér út að borða fyrr um kvöldið. Eftir matinn mætti hins vegar enginn leigubíll og reyndist þrautinni þyngri að panta annan.

Love Me Tender nýi brúðarmarsinn

„Klukkan 21:20 var Elvis farinn að hringja í okkur,“ segir Kristjón sem gekk út á götu og stöðvaði bíl af handahófi. Ökumanninum leyst ekkert á að skutla parinu í kapelluna en kærasta hans tók ekki annað í mál. Skömmu seinna voru þau mætt í kapelluna, gengu inn undir laginu Love me Tender með kónginum og korteri síðar voru þau orðin hjón.

Kristjón segir ræðu Elvis hafa verið óvenjulega og spaugilega. Elvis hafi meðal annars gefið Auði leyfi til þess að beita Kristjón ofbeldi ef hann myndi einhvern tímann gleyma að gleðja hana á brúðkaupsafmæli.

Turtildúfurnar eru komnar aftur til Los Angeles og halda til Íslands á föstudaginn. Þau reikna með að halda veislu fyrir vini sína á nýju ári og mæla sannarlega með því að gifta sig á þennan hátt. Las Vegas sé ótrúleg borg.

Snæddu með armensku mafíunni

„Maður fær ofbirtu í augun útaf risastórum auglýsingaskiltum og gosbrunnum. Hérna eru líka allt aðrar reglur í gildi. Það má reykja inni og hægt að borða mat sem er bannaður t.d. í Kaliforníu,“ segir Kristjón og rifjar upp eftirminnilegan kvöldverð fyrsta kvöldið í Los Angeles.

Þá sátu á næsta borði meðlimir armensku mafíunnar sem voru hinir vingjarnlegustu og enduðu á að borga fyrir allt saman.

„Þessir mafíósar og handrukkarar eiga þetta sameiginlegt. Þetta eru alltaf elskulegustu menn þangað til þeir byrja að bora í hnéskeljarnar á þér.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×