Innlent

Ljótur utanvegaakstur í hlíðum Hverfjalls

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ljót för eru í hlíðum fjallsins eftir bílana.
Ljót för eru í hlíðum fjallsins eftir bílana. mynd/umhverfisstofnun
Tveimur bílum var ekið utan vegar í vikunni í hlíðum Hverfjalls í Mývatnssveit. Var að minnsta kosti öðrum þeirra ekið upp hlíðina en þar stöðvaðist bíllinn vegna bratta. Frá utanvegaakstrinum er greint á Facebook-síðu Umhverfisstofnunar fyrir friðlýst svæði í Mývatnssveit og er hann þar sagður „ljótur.“

„Þó nokkur ummerki eru eftir þennan akstur enda hefur tíð verið einmuna góð og ekkert frost í jörðu. Mikilvægt er að afmá förin eins skjótt og hægt er til að lágmarka líkurnar á að aðrir fari að fordæmi þessara ökumanna en einnig til að koma í veg fyrir að vatn renni um förin og grafi þau enn dýpri,“ segir í Facebook-færslunni.

Þá kemur jafnframt fram að utanvegaakstur sé því miður viðvarandi vandamál hér á landi þrátt fyrir að vera ólöglegur. Það var árvökull vegfarandi sem kom að ökumönnunum á fjallinu og tilkynnti það til landvarða en málin er nú hjá lögreglunni. Hverfjall er friðlýst náttúruvætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×