Innlent

Grafalvarleg staða blasir við Seljaskóla

Birgir Olgeirsson skrifar
Fjórir kennarar sögðu upp fyrr í mánuðinum en fjórtán bættust til viðbótar í dag.
Fjórir kennarar sögðu upp fyrr í mánuðinum en fjórtán bættust til viðbótar í dag. Vísir/Anton Brink
 Átján kennarar af 47 við Seljaskóla í Reykjavík hafa sagt upp störfum vegna óánægju með launakjör. Magnús Þór Jónsson, skólastjóri Seljaskóla, segir grafalvarlega stöðu komna upp hjá skólanum og segir brýnt að samningsaðilar ljúki samningi sem sátt mun ríkja um.

„Þetta er grafalvarlegt ástand þegar þriðjungur kennara hefur sagt upp,“ segir Magnús Þór í samtali við Vísi. Fjórir kennarar sögðu upp fyrr í mánuðinum en fjórtán bættust til viðbótar í dag.

„Þetta leggst óskaplega illa í mig. Miðað við óbreytt ástand blasir við afskaplega slæm staða. Uppsagnirnar taka gildi 1. mars og það skiptir öllu máli að samningsaðilar einhendi sér í að ljúka samningi sem verður sátt um til að forða frekari skaða,“ segir Magnús.

Hann segir of snemmt að gera einhverjar ráðstafanir. „En það gefur auga leið að ef þriðjungur starfsmanna yfirgefur skólann á sama tíma mun það hafa veruleg áhrif á skólann til skemmri tíma.“

Hér fyrir neðan má sjá umfjöllun fréttastofu Stöðvar 2 um málið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.