Innlent

Fjölmargir kennarar íhuga uppsögn fyrir næstu mánaðamót

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Kennarar hafa tvisvar fellt kjarasamning á síðustu sex mánuðum og er deila þeirra nú komin á borð ríkissáttasemjara. Nú eru grunnlaun umsjónarkennara ríflega 418 þúsund krónur.

Í kjarasamningi sem kosið var um í júní voru launin hækkuð upp í tæplega 460 þúsund á næstu tveimur árum.

Kennarar felldu samninginn og var kosið um nýjan samning í ágúst þar sem launin höfðu ekki hækkað um krónu, eina breytingin sneri að vinnustundafyrirkomulagi. Sá samningur var því felldur líka.

Síðustu tvær vikur hafa kennarar sent skýr skilaboð til sveitarfélaga um að baráttan snúist um hærri laun, en ekki aðrar umbætur á skipulagi eða starfi.

Við viljum hærri laun, svo skulum við ræða aðrar umbætur, hafa fjölmargir kennarar sagt í samtali við fréttastofu.

Margir hafa misst móðinn vegna tafa í samningagerð og hafa að minnsta kosti fjörutíu kennarar sagt upp störfum. En samkvæmt trúnaðarmönnum grunnskólakennara víða um land eru mun fleiri með tilbúið uppsagnarbréf í vasanum og ætla að skila því inn fyrir mánaðamót ef launin hækka ekki verulega.

Erla Karlsdóttir fær 420 þúsund krónur í grunnlaun, en með öllu álagi og umsjónarbekk fær hún 450 þúsund, fyrir skatt. Hún er með þrjár háskólagráður.vísir/skjáskot
Í dag sýndu grunnskólakennarar samstöðu með því að leggja niður störf klukkan hálf tvö. Í Árbæjarskóla gengu um sextíu kennarar út og héldu fund í heimahúsi. Engar uppsagnir hafa borist frá kennurum Árbæjarskóla en trúnaðarmaður þeirra segir þolinmæðina á þrotum.

„Það eru margir að hugsa sinn gang og hvort þeir segi upp núna eða í vor,” segir Ásthildur Lóa Þórsdóttir.

Erla Karlsdóttir hefur mikla reynslu á ýmsum sviðum en er nokkuð nýlega farin að kenna.

„Ég er með þrjár háskólagráður og ég næ rétt 420 þúsund krónum í grunnlaun, fyrir skatt að sjálfsögðu,” segir hún en hún er farin að líta í kringum sig eftir öðru starfi.„Ég velti fyrir mér að komast í annað starf næsta haust, því ég er að reka heimili ein þannig að til að ná endum saman verð ég að vinna annars staðar um helgar,”

Nýútskrifaðir kennarar sem fréttastofa ræddi við sjá ekki starfið fyrir sér til framtíðar eins og staðan er í dag. Margir sinna tveimur til þremur störfum og vita að þeir geta fengið betri kjör með því að skipta um starf.

Kennarar hafa oft átt í baráttu vegna kjara sinna en kennarar með háan starfsaldur segja ástandið svartara nú en oft áður.

„Þetta er með allra versta móti. maður man eftir löngum verkföllum en nú er meiri undiralda og hefur átt sér langan aðdraganda,” segir Skarphéðinn Garðarsson.


Tengdar fréttir

Laun grunnskólakennara hafa hækkað minna en launavísitala

Laun kennara hafa hækkað um 86,7 prósent á síðustu tíu árum en þó ekki jafn mikið og launavísitala. Boðað hefur verið til samstöðufundar í dag og kennarar hvattir til að leggja niður störf klukkan hálf þrjú.

Skömminni skilað

Nýútskrifuð, með sjóðheitt prófskírteinið upp á vasann, réði ég mig sem kennara í þorpi úti á landi. Þar hitti ég konu sem tjáði mér, kinnroðalaust, að þeir sem leggðu fyrir sig kennslu væri fólkið sem væri ekki nógu gáfað til að læra eitthvað annað.

Misráðnar umbætur - Opið bréf til borgarstjóra

Ef skólastarf á ekki að hrynja á næstu – ja, vikum í sumum tilfellum, þarf einfaldan samning sem felur í sér ríflegar launahækkanir án þess að kennarar láti neitt í staðinn fyrir þær.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.