Innlent

Telur að ekki taki marga daga að komast að því hvort hægt sé að mynda stjórn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, telur að það muni ekki taka marga fyrir sig og formenn Bjartrar framtíðar og Viðreisnar að komast að því hvort þeir geti myndað nýja ríkisstjórn.

Þetta kom fram í máli Bjarna þegar Heimir Már Pétursson, fréttamaður Stöðvar 2, ræddi við hann rétt fyrir þingflokksfund Sjálfstæðismanna sem hófst í Valhöll klukkan 17:15 í dag.

Tilkynning barst um það klukkan rúmlega fimm að flokkarnir þrír myndu nú hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður en formennirnir, þeir Bjarni, Óttarr Proppé og Benedikt Jóhannesson hafa átt óformlegar samræður seinustu daga, eða nánast allt  frá því að formaður Sjálfstæðisflokksins fékk umboð til stjórnarmyndunar á miðvikudaginn í seinustu viku.

Bjarni gekk síðan á fund Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, og tilkynnti honum að flokkarnir ætli að hefja formlegar viðræður.

Viðtal Heimis Más við Bjarna má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir

Reiknað með að Bjarni hrökkvi eða stökkvi í dag

Allt bendir til að formaður Sjálfstæðisflokksins geri forseta Íslands grein fyrir því í dag hvort honum hafi tekist að koma á formlegum stjórnarmyndunarviðræðum um myndun meirihluta á Alþingi eða ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×