Innlent

Katrín komin með umboð til að mynda ríkisstjórn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur veitt Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna, umboð til myndunar nýrrar ríkisstjórnar. Þetta tilkynnti Guðni á Bessastöðum rétt í þessu eftir fund þeirra Katrínar þar.

Forsetinn greindi frá því að eftir að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefði komið á fund hans í gær þá ræddi hann við Katrínu og fór þess á leit við hana að hún myndi leiða viðræður um stjórnarmyndun.

Varð Katrín við því en eftir að Guðni hafði rætt við hana ræddi hann við formenn annarra flokka og sagði þeim að hann hefði beðið Katrínu um að taka við umboðinu.

Guðni sagði að á fundi þeirra í dag hefði hann rætt það við Katrínu að þó að ekki ætti að ana að neinu þá þyrfti að hafa hraðar hendur. Sagði forseti að Katrín hefði sýnt því sjónarmiði hans fullan skilning.

Aðspurður sagði Guðni að þau Katrín hefðu ekki beinlínis rætt um hversu marga daga hún fengi til að spreyta sig á myndun ríkisstjórnar.

„Við töluðum um það að um helgina, í síðasta lagi á mánudag, þriðjudag myndi Katrín hitta mig aftur að máli og svo fylgist ég auðvitað með í fjölmiðlum og eftir öðrum leiðum,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson en Heimir Már Pétursson, fréttamaður Stöðvar 2, stendur vaktina fyrir fréttastofu á Bessastöðum.


Tengdar fréttir

Fimm flokka stjórn frá vinstri að miðju fyrsti kostur

Katrín Jakobsdóttir fer á fund forseta í dag og fær formlegt umboð til stjórnarmyndunar. Fyrsti kostur Katrínar er fimm flokka stjórn án núverandi stjórnarflokka. Umræddir flokkar segjast tilbúnir ef málefnasamstaða næst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×