Innlent

Blautþurrkur vandamál í fráveitukerfi höfuðborgarsvæðisins

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Blautþurrkur sem fólk hendir í klósettið heima hjá sér er vandamál í fráveitukerfi höfuðborgarsvæðisins þar sem þær geta stíflað dælur kerfisins. Alþjóðlegi klósettdagurinn er á morgun og vekja Veitur athygli á þessu vandamáli í tilefni dagsins.

Íris Þórarinsdóttir, tæknistjóri hjá Veitum, segir fyrirtækið sjá rosalega miklu aukningu í notkun á blautþurrkum en hún ræddi málið í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

„Við sjáum þetta náttúrulega helst í dælunum okkar en þetta getur líka stíflað lagnir og við höfum alveg heyrt að lagnir hjá fólki stíflast þannig að það má alveg færa þetta yfir á heimilin líka,“ segir Íris.

 

Hún segir að þetta séu blautþurrkur sem fólk noti fyrir börn, einnig til að þrífa farða og svo blautþurrkur sem notaðar eru til þrifa á heimilum. Íris segir að á sumum pakkningum standi að það megi sturta þurrkunum niður en það sé ekki sniðugt þar sem þurrkurnar séu alveg massífar og leysist illa upp heldur mynda frekar köggla og stífla lagnir og dælur.

„Þetta er vandamál alls staðar og fráveitur um allan heim eru að taka það upp hvað það er sem leyfir framleiðendum að setja þetta á vörurnar,“ segir Íris.

Hún kveðst ekki hafa skýringu á þessari miklu aukningu í notkun, það er hvort fólk sé bara meira að henda þurrkunum í klósettið eða hvort að verið sé að nota meira af þeim. Þetta hafi ekki vandamál fyrir rúmum tíu árum síðan en þetta sé þróun sem hafi verið í gangi síðastliðin átta ár eða svo. Íris brýnir því fyrir fólki að henda blautþurrkum ekki í klósettið heldur í ruslafötuna.

Hlusta má á viðtalið við Írisi í spilaranum hér að ofan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.