Lífið

Með mikla ástríðu fyrir frumkvöðlum

"Ég hef brennandi ástríðu fyrir frumkvöðlum og ekki síst að fjölga konum á meðal þeirra hér í Noregi," segir Lauga Óskarsdóttir.
"Ég hef brennandi ástríðu fyrir frumkvöðlum og ekki síst að fjölga konum á meðal þeirra hér í Noregi," segir Lauga Óskarsdóttir.
Sigurlaug Óskarsdóttir, betur þekkt undir nafninu Lauga, hefur búið og starfað í Noregi og New York að mestu leyti síðan 1996. Undanfarin ár hefur hún einbeitt sér að stofnun, rekstri og verkefnum innan nokkurra frumkvöðlafyrirtækja en nýlega tók hún við starfi framkvæmdastjóra hjá Start­upLab en þar fann hún köllun sína í lífinu árið 2013; þegar hún ákvað að starfa innan frumkvöðlageirans. Fram undan eru spennandi ár og verkefni þar sem markmiðið er m.a. að stórauka hlut kvenna hjá frumkvöðlum í Noregi.

Dvöl hennar ytra hófst árið 1996 þegar fjölskyldan flutti til bæjarins Elverum í Noregi. Í upphafi ætlaði hún að stoppa í eitt ár en þau urðu á endanum þrettán. „Pabbi fékk starf sem handboltaþjálfari og ári síðar fluttum við til Drammen. Foreldrar mínir opnuðu bakarí í nálægum bæ og seldu m.a. snúða, kleinur, kringlur og rúgbrauð auk norskra og ítalskra brauða. Þau unnu langa vinnudaga og ég sá því fljótt hversu erfitt, en um leið gefandi, það var að reka eigið fyrirtæki.“

Lauga var fljót að læra norskuna en segist þó hafa verið lengur að tengjast norskri menningu og siðum. „Ég man að mér þótt Noregur kaldur og allt of snjóþungur. Svo áttu allir skíði en ég skildi aldrei „hæpið“ kringum þau. Raunar geri ég það ekki enn en hef þó lofað kærastanum mínum að prófa gönguskíðin í vetur. Fjölskyldan er búin að leigja skála í Synnfjell og ég segi stundum í gríni hann sé síðasta tilraun okkar til að samlagast norsku samfélagi enda elska Norðmenn svo sannarlega skálana sína.“

Lauga í grunnbúðum Mt. Everest.
Rússíbanareið í New York

Eftir framhaldsskóla hélt Lauga til New York þar sem hún lauk námi í alþjóðaviðskiptum frá Berkeley háskóla í New York. Meðfram námi vann hún í fullu starfi; fyrsta árið sem sjálfboðaliði fyrir hjálparsamtök, næsta ár í fasteignabransanum og lokaárin þrjú sem markaðsstjóri hjá flutningafyrirtæki. „Árin í New York voru svo sannarlega eins og rússíbanareið. Þar lærði ég margt um sjálfa mig, hæfni mína og eigið gildismat. Hraðinn var rosalega mikill og vinnuumhverfið er vægðar­laust þar sem ríkir nánast ekkert jafnvægi milli starfsframa og fjölskyldunnar.“

Eftir fimm annasöm ár í stórborginni var hún tilbúin að prófa eitthvað nýtt. Noregur var þó ekki inni í myndinni strax og því ákvað hún að fara til Íslands. „Ég þurfti tíma til að melta það sem ég hafði lært síðustu ár í New York og finna út hvað ég vildi gera í kjölfarið. Því ákvað ég að flytja heim til Íslands til að stækka tengslanetið og kynnast landinu betur.“

Óhætt er að segja að hún hafi prófað nýja hluti þá mánuði sem hún stoppaði hér. Bæði vann hún í hlutastarfi hjá hópfjármögnunar­síðunni Karolina Fund auk þess að starfa á Svöluhrauni í Hafnarfirði sem er sambýli fyrir fatlaða. „Ég vildi prófa eitthvað algjörlega nýtt og satt að segja var þessi tími ótrúleg lífsreynsla. Hópurinn sem stóð að baka Karolina Fund var frábær og það var ótrúlega gefandi að kynnast fólki sem byggði upp þetta samfélag kringum hugmyndir sínar af allri þessari ástríðu.“

Lauga Óskarsdóttir starfar með frumkvöðlum í Noregi.
Eftir nokkra mánuði á Íslandi flutti hún aftur til Noregs þar sem hún tók við starfi markaðsstjóra hjá DoHop í Noregi. „Ég leigði borð hjá StartupLab, sem er n.k. frumkvöðlasetur fyrir sprotafyrirtæki í tæknigeiranum, og fannst ég strax einhvern veginn komin heim. Að vera umkringd metnaðarfullu fólki sem leggur allt í sölurnar og þorir að takast á við ögrandi áskoranir var eitthvað fyrir mig. StartupLab var því síðasta skrefið hjá mér í leitinni, þarna fann ég að ég vildi vera frumkvöðull.“

Lærdómsríkur tími

Ári síðar stofnaði hún fyrsta fyrirtæki sitt, United Influencers Media Group, ásamt félögum sínum. Fyrir­tækið er stafræn markaðsstofa sem hjálpar vörumerkjum að tengjast leiðandi notendum (áhrifavöldum) og skapa þannig tækifæri fyrir þá til að hanna markaðsefni sem vænlegir viðskiptavinir tengjast betur, t.d. gegnum Facebook, Instagram, YouTube og Snapchat.

„Í dag er fyrirtækið með skrifstofur í Ósló, Stokkhólmi og Malmö og meðal viðskiptavina eru knattspyrnustjörnunar Zlatan Ibrahimovic og Messi auk fjölda frægra einstaklinga á Norðurlöndum. Rekstrar­tekjur fyrsta ársins voru um 200 milljónir króna og við höfum nú þegar tvöfaldað þá upphæð í ár. Þetta er búið að vera spennandi tími og um leið mjög lærdómsríkur. Nú er ég nýbúin að skipta um starf en mun sitja áfram í stjórn fyrirtækisins og er auk þess einn eigenda.“

Nýja starfið sem Lauga vísar í er framkvæmdastjórastaða innan StartupLab þar sem frumkvöðlaferðalag hennar hófst árið 2013. „Við hýsum 72 frumkvöðlafyrirtæki og um 250 starfsmenn. Markmið okkar er að auka enn frekar vöxt þessara fyrirtækja og um leið að tengja þau við fjárfesta, viðskiptavini og ýmsa ráðgjafa. Auk þess rekum við fjárfestasjóð sem heitir Founders Fund, en á bak við hann standa nokkrir sterkir fjárfestar, m.a. Jon Von Tetzchner sem hefur verið áberandi í íslensku og norsku viðskiptalífi undanfarin ár.“ Auk þess situr Lauga í stjórn Norsk-íslenska verslunarráðsins, Funde.no sem er norsk hópfjármögnunarsíða og í stjórn tónlistar­hátíðarinnar og sýningarinnar by:Larm.

Í fjallgöngu á Cortina D’Ampezzo á Ítalíu sumarið 2016.
„Ég hef brennandi ástríðu fyrir frumkvöðlum og ekki síst að fjölga konum á meðal þeirra hér í Noregi. Það vantar sárlega fleiri konur á þessum vettvangi. Þótt jafnrétti kynjanna sé vel á veg komið á Norður­löndum sjáum við það ekki endurspeglast hjá frumkvöðlafyrir­tækjum.“ Hún segir fjölbreytni í rekstri fyrirtækja og nýsköpun skipta miklu máli og þar halli verulega á konur. „Þetta snýst ekki bara um að fjölga kvenkyns frumkvöðlum heldur líka fjárfestum, stjórnarmeðlimum og stjórnarformönnum. Á þessum stigum eru mikilvægustu ákvarðanirnar teknar. Rannsóknir hafa enda sýnt að fyrir­tækjum gengur betur þar sem konur koma að stjórn, samanborið við þau sem er bara stýrt af körlum.“

Fær orku á fjöllum

Vinnudagarnir eru langir og strangir hjá Laugu og sumarfríin eru stutt. Helsta ástríða hennar utan vinnunnar er fjallaklifur en hún reynir að fara í a.m.k. eina stóra ferð á ári. „Ég finn alltaf tíma fyrir ferðalög og fjallaklifur enda fæ ég svo mikla orku þaðan. Auk þess eru fjöllin besti staðurinn til að átta sig á eigin áskorunum sem gaman er að sigrast á. Mér tókst t.d. að yfirvinna lofthræðsluna síðasta sumar þegar ég komst á topp Punta Anna sem er 2.346 metra hátt. Fjallaklifur og rekstur fyrir­tækis eru lík að mörgu leyti en þar verður maður að ýta óttanum til hliðar og stíga út fyrir þægindarammann. Svo kemst þetta upp í vana. Einn af gömlu viðskiptavinum mínum frá New York-árunum er góður vinur minn og við förum saman árlega í góða fjallaferð. Undan­farin ár höfum við m.a. klifrað á Íslandi, Púertó Ríkó, Jómfrúaeyjunum, í Nepal, á Ítalíu og í Noregi.“

Fram undan í vetur er mikil vinna tengd nýja starfinu hjá Start­upLab en þar bíða hennar m.a. þau verkefni að kynnast frumkvöðlunum og fyrirtækjum þeirra, kynnast norsku efnahagsumhverfi og að klára stefnumótunarvinnu fyrir StartupLab með teyminu sínu. Þó er ekki eintóm vinna framundan. „Um jólin ætla ég til Höfðaborgar í Suður-Afríku að sörfa, klifra og skoða mig um með kærastanum og nokkrum vinum okkar. Auk þess ætlum við kærastinn að eyða næstu áramótum í Marokkó á ferðalagi milli Casablanca og Marrakech. Þannig að það eru sannarlega spennandi og skemmtilegir tímar fram undan.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×