Innlent

Aldrei fleiri umsóknir afgreiddar

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Útlendingastofnun afgreiddi fleiri umsóknir um alþjóðlega vernd en nokkru sinni áður í síðasta mánuði.
Útlendingastofnun afgreiddi fleiri umsóknir um alþjóðlega vernd en nokkru sinni áður í síðasta mánuði. vísir/stefán
Útlendingastofnun afgreiddi fleiri umsóknir um alþjóðlega vernd en nokkru sinni áður í síðasta mánuði. Afgreiddar voru alls 107 umsóknir frá 200 manns og var rúmur helmingur þeirra makedónískir ríkisborgarar, að stórum hluta fjölskyldur.

Tæplega 70 manns komu til landsins í fyrstu viku nóvembermánaðar, og í tilkynningu frá stofnuninni segir að ekkert lát sé á fjölgun umsækjenda um vernd hér á landi.

Umsóknirnar komu frá sextán löndum, flestar frá Makedóníu, eða 106, Albaníu, 40 og Georgíu, 18, en 74 prósent umsækjendanna komu frá löndum Balkanskagans. Alls voru 80 prósent umsækjenda karlkyns og 20 prósent kvenkyns, 79 prósent voru fullorðnir og 21 prósent börn. Þrír umsækjendur í síðasta mánuði báru því við að vera fylgdarlaus ungmenni.

62 mál voru tekin til efnislegrar meðferðar en þar af voru 42 mál afgreidd í forgangsmeðferð, 25 mál voru afgreidd með ákvörðun um endursendingu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, fjórum umsækjendum var synjað því þeir höfðu þegar fengið vernd annars staðar og 16 umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka.

Í fyrstu viku nóvembermánaðar voru umsóknir um vernd tæplega 70 talsins og er heildarfjöldi umsókna á árinu þar með orðinn um 830. Útlit er því fyrir að fjöldinn í lok árs gæti farið fram úr spá Útlendingastofnunar fyrir árið 2016 sem var á bilinu 600-1000, að því er segir í tilkynningu frá Útlendingastofnun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×