Innlent

Framkvæmdaleyfi Landsnets fyrir Kröflulínu fellt úr gildi

Anton Egilsson skrifar
Ýmsir ágallar voru á ákvörðuninni um útgáfu framkvæmdaleyfisins.
Ýmsir ágallar voru á ákvörðuninni um útgáfu framkvæmdaleyfisins. Vísir/Stefán
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála felldi í dag úr gildi ákvörðun Skútustaðahrepps frá 20. apríl 2016 um að samþykkja framkvæmdaleyfi til handa Landsneti hf. fyrir Kröflulínu 4.

Það voru náttúruverndarsamtökin Fjöregg, félag um náttúruvernd og heilbrigt umhverfi í Mývatnssveit, Skútustaðahreppi, og Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands sem kærðu ákvörðunina til úrskurðarnefndarinnar

Vísir greindi frá því nú fyrir skömmu að sömu samtök hefðu kært fyrirhugaða lagasetningu á Bakkalínur til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).

Byggðu náttúruverndarsamtökin mál sitt á því að ákvörðun Skútustaðahrepps um útgáfu framkvæmdaleyfisins væri haldin þeim ágöllum að hún sé ógildanleg. Töldu þeir að stjórnsýslulög hefðu verið brotin við undirbúning og töku ákvörðunarinnar, auk þess sem hún fari í bága við almenna náttúruverndarlöggjöf á Íslandi, sérlög um verndun Mývatns og Laxár, skipulagslöggjöf og lög um mat á umhverfisáhrifum. Féllst úrskurðarnefndin á hluta þessarar málsraka.

Ekki gætt skipulags- og náttúruverndarlaga 

Í úrskurðinum kemur meðal annars fram að sveitastjórn Skútustaðarhrepps hafi við undirbúning og málsmeðferð ákvörðunar um útgáfu framkvæmdarleyfisins ekki gætt að ákvæðum skipulagslaga og nátturuverndarlaga auk þess sem hún hafi ekki fullnægt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga. Þóttu þessir ágallar óhjákvæmilega leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar

Þá var auglýsing um framkvæmdaleyfið ekki birt þrátt fyrir fyrirmæli í skipulagslögum þar um. Tilgangur slíkrar birtingar er einkum að upplýsinga almenning um að ákveðinni málsmeðferð sé lokið og gefa honum kost á að kynna sér forsendur þar að baki.


Tengdar fréttir

Kæra Bakkalínur til ESA

Náttúruverndarsamtökin Fjöregg í Mývatnssveit og Landvernd hafa kært fyrirhugaða lagasetningu um Bakkalínur til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).

Kæra lagasetningu á Bakkalínur til ESA

Náttúruverndarsamtökin Fjöregg í Mývatnssveit og Landvernd hafa kært fyrirhugaða lagasetningu um Bakkalínur til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×