Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsneti. Þar segir að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi á föstudag fellt tvo úrskurði um stöðvun framkvæmda vegna ákvarðana sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Þeistareykjalínu 1 og Kröflulínu 4. Úrskurðirnir séu til bráðabirgða á meðan nefndin fjalli um kærur Landverndar vegna útgáfu framkvæmdaleyfanna.
Í tilkynningunni er haft eftir Guðmundi Inga Ásmundssyni, forstjóra Landsnets, að stöðvun sem þessi hafi mikil áhrif á framkvæmdir og mögulega standi Landsnet frammi fyrir því að geta ekki staðið við skuldbindingar sínar vegna Bakka og Þeistareykjavirkjunar.

„Þeistareykjalína 1
Lengd fyrirhugaðrar Þeistareykjalínu 1 er 28,2 km frá Þeistareykjum að Bakka og liggja 7,7 km innan Þingeyjarsveitar. Innan Norðurþings er línan rúmir 20 km. Úrskurðurinn felur í sér að Landsneti er óheimilt að hefja framkvæmdir við Þeistareykjalínu 1 innan Þingeyjarsveitar. Framkvæmdir á viðkomandi svæði voru ekki hafnar.
Kröflulína 4
Lengd fyrirhugaðrar Kröflulínu 4 er 32,7 km frá Kröflu að Þeistareykjum og liggja um 12 km innan Þingeyjarsveitar. Innan Skútustaðahrepps er línan um 21 km. Hvað varðar Kröflulínu 4 innan Þingeyjarsveitar tekur úrskurður um stöðvun til framkvæmda í nágrenni Þeistareykjavirkjunar sem er um 7 km af línuleiðinni. Sökum þessa hafa framkvæmdir á viðkomandi svæði þegar verið stöðvaðar,“ segir í tilkynningunni.