Lífið

Októberspá Siggu Kling – Meyja: Þú hefur enn tíma til að setja í fimmta gír

Elsku besta frábæra Meyjan mín. Þú ert svo pottþétt á yfirborðinu en ert samt alltaf til í tuskið. Ég hef sagt það áður að það er eins og þú sért með Gucci-prik í rassinum. Þú ert alltaf svo bein og svo flott.

Þú mundir auðvitað aldrei setja eitthvert prik upp í rassinn á þér nema það væri ekta. Þú ert svo ráðagóð en heldur svoldið aftur af þér, þú skalt núna sleppa þér alveg frjálsri, þá muntu þjóta í gegnum fjallið. Þú ert á merkilegum tímum þar sem þú ert nýbúin að eiga afmæli sem táknar upphaf að nýjum sigrum.

Það er svo mikilvægt fyrir þig að vinna sjálfstætt og það væri nóg að setja á ferilskrána: „Ég er meyja,“ og það væri bara vitleysingur sem myndi ekki ráða þig í hvað sem er. En þegar þú hefur ekki stjórn á þeim stað sem þú ert á, þá fer þér að leiðast og þú nennir þessu ekki. Svo þú þarft að vera mjög skýr, hvort sem þú ert í skóla eða hvar sem er – þú þarft að hafa lausan tauminn.

Ef þú ert ekki búin að sýna frumkvæði í september, þá ertu örg og pirruð út í sjálfa þig, þú hefur enn tíma til að setja í fimmta gír og fara yfir allar holur sem eru framundan. Eini frasinn sem þú mátt ekki nota næsta mánuðinn og þarft að gjörsamlega að sleppa úr orðaforða þínum er: „Ég vorkenni sjálfri mér.“

Það gerir þig lina og leiðinlega. Þú verður að velja á milli þess að ná árangri, sama hvað þú kallar árangur, eða setja allan kraft í ástina, það er annað hvort. Spurðu, hvort er mikilvægara, frami þinn eða ástin. Þegar líða tekur á veturinn, muntu geta sameinað hvort tveggja, það er í kortunum þínum.

Ef þú skoðar betur, þá er grunnurinn kominn að því sem þú ætlar að gera. Þig vantar bara yfirbygginguna. Maður er oft þreyttur þegar maður sér ekki allt skýrt fyrir sér, hvernig hlutirnir eiga að vera. Róm var hvorki byggð né brennd á einum degi. Svo vertu þakklát fyrir það sem þú hefur því þú ert búin að afreka margt og þetta er rétt byrjunin.

Knús og klapp, Siggi Kling

Sigga býður upp á þjónustunámskeið fyrir fyrirtæki af öllum t0ga: Hópefli – hressingarfyrirlestur sem getur verið hentugur í hádegishlé eða í byrjun vinnudags. Einnig tekur hún að sér hópa sem vilja eiga jákvæða og gleðilega kvöldstund. Þeir sem hafa áhuga gefa haft samband við Siggu með því að senda tölvupóst á siggakling@gmail.com 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×