Innlent

Stefán Karl alvarlega veikur

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Einn ástsælasti leikari þjóðarinnar, Stefán Karl Stefánsson, er mjög alvarlega veikur og var lagður inn á sjúkrahús um helgina en eiginkona hans, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, greinir frá þessu í opinni færslu á Facebook-síðu sinni í kvöld.

Í færslunni kemur fram að áætlað sé að Stefán fari í skurðaðgerð þann 4. október næstkomandi til að fjarlægja mein sem leikarinn greindist með en það þrengir að gallvegi og brisgöngum. Steinunn segir að ekki sé vitað hvort að meinið sé góðkynja eða illkynja en góðu fréttirnar séu þó þær að ekki virðast nein merki um mein í öðrum líffærum.

Á annað þúsund manns hafa sent Stefáni batakveðjur á Facebook-síðu Steinunnar Ólínu en hann er einn fárra íslenskra leikara sem hafa náð langt á erlendri grundu og er vel þekktur utan landsteinanna fyrir hlutverk sín sem Glanni glæpur og Trölli sem stal jólunum.

Steinunn Ólína er ritstjóri Kvennablaðsins en ekki náðist í hana við vinnslu fréttarinnar.

Uppfært klukkan 10:00

Ritstjórn ræddi við Steinunni Ólínu í morgun þar sem hún útskýrði að beiðni um að afrita ekki færslu hennar á Facebook hafi ekki verið almenn krafa til fjölmiðla að greina ekki frá veikindum Stefáns Karls - tilgangurinn með færslunni hafi einmitt verið sá að upplýsa fólk um stöðu mála. Var batakveðjum til Stefáns Karls komið á framfæri fyrir hönd fréttastofu 365.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.