Innlent

Norðurljósadýrðin nær hámarki á morgun

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Tilkomumikil norðurljósasýning á himni hefur blasað við landsmönnum undanfarin kvöld.
Tilkomumikil norðurljósasýning á himni hefur blasað við landsmönnum undanfarin kvöld. Mynd/Sævar Helgi
Landsmenn urðu eflaust flestir varir við norðurljósasýninguna á himni í gærkvöld og undanfarin kvöld. Þeir sem misstu af sýningunni þurfa þó ekki að örvænta því búast má við öðru eins sjónarspili næstu þrjá daga.

Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins, segir að annað kvöld muni norðurljósaveislan ná hámarki. „Toppurinn í þessari viku verður væntanlega annað kvöld. Þá byrjar sýningin í rauninni bara um leið og sólin sest og er í hámarki um 11 til 1 um nóttina og svo verður þetta sömuleiðis fínt á fimmtudag og svo hægt og rólega fjarar þetta út,” sagði Sævar Helgi í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Þetta stafar af því að sólin er svolítið eins og garðúðari. Sendir okkur strauma af sólvindi yfir okkur og jörðin er einmitt inni í einum úðanum núna. “

Aðspurður segir Sævar best að fara út fyrir borgar- eða bæjarmörkin til þess að flýja sjónmengunina. „Það er best að fara út fyrir bæinn til þess að komast í aðeins meira myrkur. En þegar norðurljósin eru jafn björt og þau hafa verið undanfarna daga þá er alveg nóg að vera inni í borginni, hreinlega. Finna sér samt stað sem er þokkalega dimmur og þá nýtur maður sýningarinnar mest.”  
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.