Innlent

Þjóðaröryggisráð stofnað

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Frumvarp Lilju Alfreðsdóttur um þjóðaröryggisráð var samþykkt mótatkvæðalaust á Alþingi í dag.
Frumvarp Lilju Alfreðsdóttur um þjóðaröryggisráð var samþykkt mótatkvæðalaust á Alþingi í dag. vísir/Stefán
Frumvarp til laga um þjóðaröryggisráð var samþykkt á Alþingi í dag. Lögin taka strax gildi en þau taka meðal annars til þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, framfylgdar hennar og endurskoðunar. Forsætisráðherra verður formaður þjóðaröryggisráðsins.

Enginn greiddi atkvæði gegn frumvarpinu. Það var samþykkt með 46 atkvæðum en þrír þingmenn Vinstri grænna; Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Katrín Jakobsdóttir og Ögmundur Jónasson sátu hjá við atkvæðagreiðsluna. Aðrir þingmenn voru fjarverandi.

Greiða átti atkvæði um málið 24. ágúst síðastliðinn en sökum fjarvista var atkvæðagreiðslu frestað, og hún því tekin fyrir í dag.

Í frumvarpinu segir að þjóðaröryggisráð hafi eftirlit með því að þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland sé framkvæmd í samræmi við ályktun Alþingis og jafnframt samráðsvettvangur fyrir þjóðaröryggismál. Ráðinu er einnig falið að meta ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum, svo fátt eitt sé nefnt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×