Innlent

Missti son sinn vegna misnotkunar á morfínplástri: „Hann var stóra ástin í mínu lífi“

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Sonur Guðnýar Rannveigar Reynisdóttur var á biðlista eftir meðferð á Vogi þegar hann lést.
Sonur Guðnýar Rannveigar Reynisdóttur var á biðlista eftir meðferð á Vogi þegar hann lést. vísir
„Hann var stóra ástin í mínu lífi og einkasonur minn,“ segir Guðný Rannveig Reynisdóttir en sonur hennar lést árið 2013 tuttugu og sjö ára gamall vegna misnotkunar á morfínplástri. Hann leysti plásturinn upp og sprautaði sig með upplausninni á meðferðarheimilinu Hallgerðarkoti í nóvember það ár og lést stuttu síðar.

Lyfið fentanýl, morfínskylt líf sem selt er í plástursformi, hefur verið mikið í umræðunni hér á landi en komst í hámæli eftir að ungur maður lést um síðustu helgi og annar missti meðvitund. Grunur leikur á að lyfið hafi komið við sögu í báðum tilvikum. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú málið.

Mennirnir, sem eru fæddir árið 1990 og árið 1992, þekktust og höfðu verið á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur með félögum sínum um kvöldið. Annar missti meðvitund í porti í miðbænum og hinn lést skömmu síðar á heimili sínu.

Beið eftir því að komast á Vog

Guðný útskýrir að hún hafi sett sig í samband við landlæknisembættið eftir fráfall sonar síns. Hún hafi bent þeim á að sonur hennar hafi misnotað plásturinn og að hún vissi um fleiri í sömu sporum. „Drengurinn sem eitt sinn seldi syni mínum svona skammt dó nokkrum mánuðum eftir að sonur minn lést. Ég skil ekki af hverju embættið kemst ekki að því hvaða læknar það eru sem gefa fólki lyfið sem þarf ekki á því að halda,“ segir hún.

Sonur Guðnýjar hafði verið lengi í neyslu. Hann lést í nóvembermánuði en þá var hann að bíða eftir því að komast inn á Vog. „Hann hafði verið inni á Vogi í maí þetta árið og stungið af úr meðferðinni. Það þýddi að þegar hann sótti aftur um í september tveimur mánuðum áður en hann lést settu þau hann aftast á biðlistann,“ segir Guðný, sem ítrekað hringdi á Vog og bað um pláss fyrir son sinn sem sjálfur vildi fara inn og leita sér hjálpar. Hún segist hafa hringt þrisvar til fjórum sinnum í viku í langan tíma og reynt að hafa samband við yfirstjórnendur en ekkert gekk. „Þau setja hann aftast í röðina því hann hafði verið óþekkur í meðferð nokkrum mánuðum áður.“

Eftir að sonur Guðnýjar deyr í nóvember þá hafði dóttir hennar samband við Vog og spyr hvar bróðir hennar sé staddur á biðlistanum. „Þá fær hún þau svör að hann sé enn aftarlega á listanum. Hún segir þeim að það sé um seinan enda sé hann dáinn,“ segir Guðný og útskýrir að fjölskyldan sé virkilega ósátt við einkarekna meðferðarheimilið.

Hún vill brýna fyrir þeim einstaklingum sem eru að misnota fentanýl eða önnur morfínskyld lyf að hugsa sig tvisvar um. „Þetta er stórhættulegt. Reynið að hugsa hvað þið eruð að gera ykkur og öllum þeim sem elska ykkur. Það er alltaf fjölskylda í kringum fíkilinn. Nú er til dæmis lítill drengur sem er föðurlaus en sonur minn átti hann.“

Hún útskýrir að eftir andlát sonar síns hafi það verið rannsakað hvernig hann varð sér úti um plásturinn. Ekki hafi þó tekist að finna út úr því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×