Innlent

Þúsundir gengu fylktu liði í Druslugöngunni

Atli Ísleifsson skrifar
„Þetta var alveg ótrúlegt og ræðurnar alveg stórkostlegar og gríðarlega mikilvægar,“ segir Hjalti Vigfússon, einn aðstandenda Druslugöngunnar, en mikill fjöldi fólks var saman kominn í miðborg Reykjavíkur til að taka þátt í Druslugöngu ársins.

Hjalti segir ómögulegt að meta fjölda þeirra sem þátt tóku í göngunni og hvort þeir hafi verið jafnmargir og í fyrra þegar um 15 þúsund manns tóku þátt. Hann segir fjöldann þó hafa verið mjög mikinn.

Guðrún Ögmundsdóttir var ein þeirra sem fluttu ræðu á Austurvelli og uppskar hún mikið lófatak þegar hún þakkaði ungum druslum fyrir að hafa vakið gamlar druslur, en Guðrún hefur unnið í málaflokknum kynferðisofbeldi í fjölmörg ár.

Hjalti segir að Júlía Birgisdóttir hafi flutt magnaða ræðu um stafrænt kynferðisofbeldi sem hreyfði mikið við fólki en hún hefur barist fyrir úrbótum í réttarkerfinu í málaflokknum. Þá flutti Hjálmar Sigmarsson mikilvæga ræðu um stöðu karlkyns brotaþola og nauðsyn þess að rjúfa það tabú sem ríkir í kringum þá. Hjálmar hefur starfað lengi sem ráðgjafi hjá Stígamótum.

Druslugangan var gengin í sjötta sinn í dag, en Eyþór Árnason, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var á staðnum og smellti af nokkrum myndum.

Druslugangan var gengin í sjötta sinn í dag.Vísir/Eyþór



Fleiri fréttir

Sjá meira


×