Innlent

Sjallinn á Akureyri verður rifinn en lokaballið hefur þó ekki verið haldið enn

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá skemmtun í Sjallanum.
Frá skemmtun í Sjallanum.
Íslandshótel  hafa keypt Sjallann á Akureyri og húsin í kringum hann. Samningur þess efnis var undirritaður í fyrra dag en frá þessu er greint í Viðskiptablaðinu. Þar segir Óskar Finnsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Íslandshótela, að Sjallinn verði rifinn og þar muni rísa hús í norskum eða austurrískum stíl. 

Sjallinn á Akureyri er einn þekktast skemmtistaður landsins og hefur verið rekinn samfleytt frá árinu 1963 en síðastliðin ár hefur verið mikil óvissa með rekstur staðarins og lokaball Sjallans ítrekað verið auglýst. Samkvæmt áformum Íslandshótela er vafalaust pláss fyrir nokkur böll í viðbót. Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, segir í samtali við Vísi að húsið muni standa allavega í tvö ár í viðbót.

„Við eru búin að láta gera úttekt á húsinu og það er þannig ástandið á því að það borgar sig ekki að byggja hótel í gamla húsinu. En við erum bara í ferli núna að teikna hanna og skipuleggja og við gerum ráð fyrir að byggja fyrst áfanga við hliðina á hótelinu ef allt gengur eftir og við fáum samþykki hjá bænum. Þá erum við að tala um að fyrri áfangi gæti opnað 2018-19 og seinni áfangi svona ári eða tveimur árum eftir það. Þannig að húsið mun standa þarna allavega tvö ár í viðbót,“ segir Davíð Torfi.

„Þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar og margítrekuð lokaböll þá munu þau örugglega vera nokkur í viðbót.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×