Innlent

Halla Tómasdóttir segist ekki ætla í framboð

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Halla bauð sig fram í forsetakosningunum í sumar.
Halla bauð sig fram í forsetakosningunum í sumar. Vísir/Hanna
Halla Tómasdóttir, forsetaframbjóðandi og fyrirlesari, hyggst ekki fara í framboð í haust. Þetta tilkynnir hún á Facebook síðu sinni. Hún segist þó þakklát fyrir hvatninguna.

Hún  var nýlega orðuð við Viðreisn en Eyjan greindi frá því að Halla yrði í leiðtogahlutverki hjá flokknum í komandi kosningum. Vísir ræddi við Benedikt Jóhannesson, formann Viðreisnar, í morgun sem vísaði því á bug að hann hefði rætt við Höllu um framboð í haust.

Halla segist jafnframt ekki hyggja á valdarán innan flokksins en Benedikt velti því fyrir sér, meira í gamni en alvöru, hvort um valdaránstilraun hafi verið að ræða sökum þess að ákveðið hafði verið að Halla færi fram fyrir flokkinn án alls samráðs við formanninn sjálfan.

Forsetaframbjóðandinn, sem var sá frambjóðandi sem veitti þeim frambjóðanda sem að lokum náði kjöri hvað mesta samkeppni, segist ekki standa frammi fyrir erfiðari ákvörðun en í hvaða rennibraut hún eigi að fara í Aqualandia.

Halla er stödd ásamt fjölskyldu sinni í fríi í Altea á Spáni.

„Ja hérna, það er greinilega áhættusamt að fara í frí og úr sambandi við umheiminn,“ skrifar Halla. „Ég fullvissa ykkur kæru vinir að ég hygg hvorki á valdarán né framboð. Eina ákvörðunin sem ég er að reyna að taka núna er hvort ég eigi að fara í bláu eða svörtu rennibrautina í Aqualandia :) Er ykkur þó þakklát fyrir hvatninguna!“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×