Innlent

Mikið áhyggjuefni ef ungt fólk menntar sig ekki

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Menntamálaráðherra segir það vera mikið áhyggjuefni fyrir íslenskt hagkerfi að ungt fólk sjái ekki fjárhagslegan ávinning af menntun. Það þurfi þó ekki að koma á óvart enda hafi áherslan í kjarasamningum undanfarið verið sú að hækka lægstu launin.

BHM stóð fyrir málþingi um stöðu háskólamenntaðra á vinnumarkaði í gær. Þar kom meðal annars fram að staða þessa hóps fari versnandi og að fjárhagslegur ábati af háskólanámi fari minnkandi. Menntamálaráðherra segir þetta ekki þurfa að koma á óvart enda hafi áherslan í kjarasamningum undanfarin misseri verið sú að hækka lægstu launin.

„Það hefur þá þær afleiðingar til lengri tíma að það minnkar munurinn á milli þeirra sem ganga menntaveginn og afla sér menntunar og hinna sem gera það ekki. Ég held að staðan sé raunar þannig núna að það er hvað minnstur munurinn, þegar horft er á laun sem að hafa gengið menntaveginn og þeirra sem ekki hafa gert það, hér á Íslandi í alþjóðlegum samanburði,“ segir Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra.

Það sé áhyggjuefni ef ungt fólk sér ekki fjárhagslegan ávinning af menntun.

„Það væri mjög mikið áhyggjuefni fyrir íslenskt hagkerfi vegna þess að hagkerfi nútímans þau hverfast mjög um menntun. Hagvöxtur byggir mjög á menntun, vísindum, rannsóknum og þekkingu og þannig náum við fram meiri framleiðniaukningu. Framleiðum meira á hverri vinnustund,“ segir Illugi.

Illugi segir að erfitt sé að bregðast við þessari stöðu með einni aðgerð. Þó megi nefna að framhaldsskólinn hafi verið styttur úr fjórum árum í þrjú og tími nemenda þannig betur nýttur og ævitekjur verða hærri.

„Við þurfum líka auðvitað að horfa á háskólanna. Það má bæta þar námsframvinduna, nýta betur tímann þar þannig að fólk hafi fleiri ár á vinnumarkaði en áður. Þetta skiptir máli,“ segir Illugi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×