Innlent

Kosningalöggjöf til forsetakjörs „skrípaleikur“

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. Vísir/gva
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, furðar sig á því að hægt sé að kjósa til embættis forseta Íslands, í utankjörstaðakosningum, áður en frambjóðendur hafa skilað inn framboði. Þannig hafi kjósendur í raun ekki hugmynd um hverjir séu í framboði – sem sé með öllu ótækt.

„Hvers konar lög eru það sem Alþingi Íslendinga setur um kosningar ef hægt er að fara fram með þessum hætti? Menn bjóða sig fram, þeir tilkynna framboð, þeir eru ekki komnir í framboð af því að þeir hafa ekki skilað inn,“ sagði Ragnheiður í störfum þingsins á Alþingi í dag.

Atkvæðagreiðsla hófst undan kjörfundar 30. apríl síðastliðinn en framboðsfrestur rennur út 21. maí.  Samkvæmt reglum um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar ritar kjósandi sjálfur fullt nafn þess frambjóðanda sem hann vill kjósa.

„Ef allir eru í framboði virðulegur forseti þá þarf samt að skila inn lista um það að maður sé í framboði og hafi til þess bæran fjölda að baki sér. Virðulegur forseti. Mér þykir leitt að orða það með þessum hætti en þessi kosningalöggjöf til forsetakjörs, til æðsta embættis lýðveldisins, hún er skrípaleikur,“ sagði Ragnheiður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×