Innlent

Röskun á flugi á Keflavíkurflugvelli í nótt

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Sigurjón segir viðræður ekki stopp en að þær gangi hægt.
Sigurjón segir viðræður ekki stopp en að þær gangi hægt. Vísir/Vilhelm
Röskun verður á flugi á Keflavíkurflugvelli í nótt vegna yfirvinnubanns flugumferðarstjóra. Yfirvinnubannið tók gildi í byrjun apríl og er liður í kjaradeilu flugumferðarstjóra við Isavia og Samtök atvinnulífsins. Einhverju flugi verður beint til Egilsstaða og öðru seinkar. Þetta staðfestir Sigurjón Jónasson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra í samtali við Vísi.

„Það er bara einn maður á vakt. Þá verður röskun á flugi,“ segir Sigurjón. „Það verða tímabundnar lokanir í nótt, bara svona til þess að starfsmaðurinn fái smá hvíld yfir nóttina. Það er náttúrulega ekki hægt að láta einn mann sitja á vakt þarna yfir nóttina og vinna á við fullmannaða vakt.“ Sigurjón gerir ráð fyrir að allt verði komið í samt horf um átta í fyrramálið. Keflavíkurflugvelli verður lokað á milli eitt og fimm í nótt. Ein vél sem átti að lenda á miðnætti frá London verður send til Egilsstaða. 

Kjaraviðræður flugumferðarstjóra hófust í október á síðasta ári og stefnt var að því að skrifa undir áður en samningar rynnu út í febrúar.

Næsti fundur samningsaðila er fyrirhugaður á þriðjudagsmorgun. „Viðræður ganga frekar hægt en þær eru ekkert stopp. Við reynum bara að halda áfram,“ segir Sigurjón. Hann segir mikið bera á milli í deilunni.

Ekki náðist í upplýsingafulltrúa ISAVIA við vinnslu fréttarinnar. 


Tengdar fréttir

Flýta flugi til að forðast Keflavík

Reykjavíkurflugvöllur lokaði klukkan átta í gærkvöldi vegna yfirvinnubanns flugumferðarstjóra. Tveimur síðustu ferðum í innanlandsfluginu var flýtt. Á föstudagskvöld þurfti að lenda þremur flugvélum á Keflavíkurflugvelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×