Innlent

Eiríkur Björn útilokar framboð

Bjarki Ármannsson skrifar
Bæjarstjóri Akureyrar íhugaði að bjóða sig fram til forseta en breytt afstaða Ólafs Ragnars varð til þess að hann hættir við.
Bæjarstjóri Akureyrar íhugaði að bjóða sig fram til forseta en breytt afstaða Ólafs Ragnars varð til þess að hann hættir við. Vísir/Ernir
Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyrar, mun ekki bjóða sig fram til forseta Íslands. Hann segist í tilkynningu til fjölmiðla hafa íhugað möguleikann á framboði en að afstaða hans hafi breyst eftir að Ólafur Ragnar Grímsson, sitjandi forseti, breytti afstöðu sinni og tilkynnti að hann hyggðist bjóða sig fram á ný.

„Sem sitjandi forseti til 20 ára hefur Ólafur Ragnar mikið forskot á aðra frambjóðendur,“ segir Eiríkur í tilkynningu sinni. „Því breytir þátttaka hans í kosningabaráttunni væntanlega umræðunni sem fer fram um embættið með sama hætti og gerðist árið 2012. Búast má við að meira verði rætt um persónu hans en embættið sjálft og þau málefni sem forseti getur beitt sér fyrir. “

Eiríkur þakkar í tilkynningu sinni, sem finna má í heild sinni í viðhengi við fréttina, öllum þeim sem hafa hvatt og stutt hann í undirbúningi framboðs.

Fjórir forsetaframbjóðendur hafa hætt við að bjóða sig fram frá því að Ólafur Ragnar greindi frá ákvörðun sinni; þeir Bæring Ólafsson, Guðmundur Franklín Jónsson, Vigfús Bjarni Albertsson og Heimir Örn Hólmarsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×