Innlent

Reyndi að villa á sér heimildir sem starfsmaður Landspítalans

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Konan þóttist vera starfsmaður Landspítalans. Tekið skal fram að starfsmaðurinn á myndinni er ekki konan sem um ræðir.
Konan þóttist vera starfsmaður Landspítalans. Tekið skal fram að starfsmaðurinn á myndinni er ekki konan sem um ræðir. vísir/vilhelm
Kona á fertugsaldri var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmd í tveggja mánaða fangelsi fyrir fíkniefna- og umferðarlagabrot auk þess að hafa stolið munum af Landspítalanum við Hringbraut.

Konan reyndi meðal annars að villa á sér heimildir og þóttist vera starfsmaður spítalans. Hún klæddist fatnaði ætluðum starfsmönnum, stal starfsmannaskilríkjum, masterlykli að spítalanum. Þá náði hún einnig að koma höndum yfir farsíma merktum spítalanum, eyrnasjá, skærum og skápalyklum starfsmanns.

Konan játaði brot sín skýlaust fyrir dómi. Hún játaði einnig að hafa ekið bíl undir áhrifum áfengis og kannabisefna þrátt fyrir að vera án ökuleyfis. Þá fundust í vörslu hennar 23 kannabisplöntur.

Með brotum sínum rauf konan skilorð en í nóvember 2013 var hún dæmd í eins mánaðar fangelsi fyrir þjófnaðarbrot. Þá braust hún ítrekað inn í íbúð og hafði þaðan á brott eldavél, bakaraofn, blöndunartæki, baðkar, rennihurð og postulínshillu. Fullnustu refsingarinnar var frestað í tvö ár.

Auk fangelsisrefsingarinnar voru kannabisplönturnar og búnaður til ræktunar þeirra gerðar upptækar. Þá var konan svipt ökuréttindum í tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×