Olíuverð náði í vikunni hæstu hæðum á árinu eftir að hafa farið stiglækkandi frá því í ágúst 2014. Í mars sögðu forsvarsmenn Alþjóðaorkumálastofnunarinnar að vísbendingar væru um að hrávöruverð á olíu væri að verða stöðugt á ný og komi jafnvel til með að hækka.

Erna Björg Sverrisdóttir, sérfræðingur í greiningardeild Arion banka, segir að olíuverð hafi bæði bein og óbein áhrif á íslensk heimili. „Hið almenna íslenska heimili hefur notið góðs af lækkunum. En ef einhverjir hafa hag af því að olíuverð sé hærra þá getur þetta haft neikvæð áhrif á þá,“ segir Erna.
„Beinu áhrifin á íslensk heimili eru í gegnum rekstur bifreiða. Greiningardeildin fjallaði um það í febrúar að rekstur bifreiða telji til ellefu prósenta af neyslu heimila og áætlar að af þessu sé helmingurinn bensínverð. Áætla má þá að heimilin hafi sparað sjö milljarða króna í fyrra á olíuverðlækkun,“ segir Erna.

„Ef olíuverð stendur í stað eða hækkar gæti því verðbólga stigið upp á við sem hefur áhrif á húsnæðislán,“ segir Erna. „Bensínverð er nú þegar aðeins farið að þokast upp.“
Erna telur að framtíðar olíuverð velti mikið á fundinum á sunnudaginn. „Ég gæti trúað því að ef ekki verður komist að samkomulagi muni olíuverð eitthvað lækka í kjölfarið," segir Erna Björg Sverrisdóttir.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 16. apríl.