Innlent

Segja um 22 þúsund hafa mætt á Austurvöll

Bjarki Ármannsson skrifar

Skipuleggjendur mótmælafundar á Austurvelli í kvöld segja um 22 þúsund manns hafa mætt, samkvæmt sinni talningu, til þess að krefjast þess að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar segi af sér.

Í beinni útsendingu í fréttum Stöðvar 2 fyrir stuttu sagði Sara Elísa Þórðardóttir, einn skipuleggjenda, að um 22 þúsund hefðu mætt og mótmælt friðsællega.

Arnar Rúnar Marteinsson, varðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði að samkvæmt talningu lögreglu á sjötta tímanum hefðu um átta til níu þúsund manns verið á Austurvelli. Mikið flæði hefði þó verið á fólki og ekki ólíklegt að heildarfjöldinn í miðbænum hefði verið um tíu til fimmtán þúsund manns.

Hann lagði áherslu á að hann véfengdi alls ekki tölur mótmælenda enda hefði verið töluverður straumur hjá fólki í gegnum Austurvöll. Skipuleggjendur mótmælanna segja augljósan vilja fyrir hendi hjá almenningi að ríkisstjórnin víki.

Arnar sagði að mótmælin væru alls ekki róleg, fólk hefði kastað hlutum í Alþingishúsið og bönunum og öðru verið kastað að lögreglumönnum. Enginn var handtekinn eftir að mótmælin hófust, að sögn lögreglu, og enginn særðist. Fyrr í dag var einn handtekinn fyrir að henda skyri í þinghúsið.

Viðtalið við Arnar Rúnar má sjá í spilaranum að ofan.

22,547 manns taldir kl 17.30. Þá komst fólk ekki lengur að og stóð í hundruða, ef ekki þúsundatali fyrir utan Austurvöll. Talið á öllum fjórum inngöngum frá kl. 16.30.

Posted by Daði Ingólfsson on 4. apríl 2016


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.