Innlent

Deila um tillögu um þingrof

Þórdís Valsdóttir skrifar
Forseti Íslands segir engan misskilning fyrir hendi.
Forseti Íslands segir engan misskilning fyrir hendi. vísir/Anton Brink
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segist ekki hafa borið upp formlega tillögu um þingrof á fundi hans og Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, sem fram fór á Bessastöðum í gær. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Það er þó ótvíræður skilningur forsetans að Sigmundur Davíð hafi borið upp þingrofstillögu á umræddum fundi. Sagði hann starfsmenn forsætisráðuneytisins hafa mætt á fundinn með tilbúin skjöl til undirritunar samþykkti hann tillöguna.

„Á fundinum upplýsti forsætisráðherra forseta um stöðu mála í stjórnmálum hér á landi og greindi jafnframt frá áformum sínum um að leggja til við forseta að þing yrði rofið og boðað yrði til almennra alþingiskosninga ef í ljós kæmi að meirihluta stuðningur við ríkisstjórnina væri brostinn,“ segir í tilkynningunni.

Í kjölfar fundarins boðaði forseti óvænt til blaðamannafundar og sagðist hafa hafnað þeirri ósk Sigmundar Davíðs að hann fengi heimild til að rjúfa þing. Á blaðamannafundinum skýrði Ólafur Ragnar frá því að hann hefði ekki verið reiðubúinn til að undirrita yfirlýsingu um þingrof, né gefa Sigmundi Davíð nokkurt fyrirheit um það hvort hann myndi samþykkja þá beiðni fyrr en hann hefði átt samtöl við forystumenn annarra flokka um afstöðu þeirra.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. apríl. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×